Eftir 29 ára fjarveru eru kærleiksríku lofthausarnir Bill og Ted snúnir aftur, lítið breyttir, enn í stuði og með loftgítarana á lofti. Þó þurfa þeir nú að horfast í augu við breytta tíma, enda miðaldra feður með úreltan stíl. Lífið eftir frægðina hefur ekki reynst þeim jákvætt og hefur þeim og hljómsveitinni Wyld Stallyns ekki enn tekist að skapa hið fullkomna tónverk sem mun sameina allt mannkynið, eins og þeim var spáð.
Í túlkun þeirra Winter og Reeves verða þeir Bill Prescott og Ted Logan endalaust viðkunnanlegir og selur sú taumlausa, tímalausa bjartsýni þann jákvæða anda sem rennur í gegnum þá. Handritshöfundarnir Chris Matheson og Ed Solomon eiga auðvitað sinn þátt í þessu öllu líka og er það vel viðeigandi að þeir loki sjálfir þessum geggjaða þríleik sínum.
Upprunalega myndin, Bill & Ted’s Excellent Adventure, stendur fyllilega undir nafni og er ein skemmtilegasta tímaflakks-/rasshausakómedía allra tíma. Hvergi dauð mínúta – og svo yndislega ‘80s ofan á það. Þremur árum síðar kom Bill & Ted’s Bogus Journey, sem féll ekki eins vel í kramið, að minnsta kosti ekki fyrr en költ-pallinn gaf henni þá ást sem hún átti skilið; miklu furðulegri, beinskeyttari og alveg löðrandi í skýrum ‘90s-gljáa.
Miðað við önnur fordæmi af síðbúnum framhöldum vinsælla gamanmynda, var allt útlit fyrir að þriðja Bill & Ted myndin yrði einhvers konar lestarslys, en þvert gegn öllum náttúrulögmálum hittir hún í mark.
Það er rammpökkuð sköpunargleðin í því bráðskemmtilega sprelli sem flæðir gegnum Bill & Ted Face the Music; hún er hröð, fyndin og með sjarmerandi skilaboð um kynslóðarbil og sameiningarkraft fólks og listar. Við það bætist allt sem við mætti búast; tímaflakk, dauði, yfirvofandi heimsendir og heill haugur skrípafígúra af merkisfólki mannkynssögunnar.
Þessi kærkomna endurkoma félagana litast þó af vissri kaldhæðni í garð frægari helmingsins, Keanu Reeves. Á þeim tíma þegar Bill og Ted voru sem vinsælastir þótti það vera bláköld staðreynd að Reeves væri enginn leikari, að persónuleiki hans kæmist aldrei út fyrir „Woah!“ taktana og sætt andlit. Á árunum sem hafa liðið síðan þá hefur kappinn reynt allan fjandann og prófað að flexa nýja vöðva; annað slagið með frábærum árangri. Hann hefur sannað sig sem miklu meira en bara táknmynd “woah!” frasans.
Sturlaða staðreyndin er annars vegar sú, nú þegar Keanu er kominn aftur í gamla dúddann sem gerði hann frægan, reynist hann í dag allt of alvarlegur og stífur til að gæða persónunni sama trúverðugleika. Hann er langt frá því að vera alslæmur og kemst í sérstaklega gott grúv þegar hann leikur Ted úr annarri tímalínu, en öðru gildir um mótleikarann.
Alex Winter fer létt með að bregða sér í karakter Bills, eins og tíminn hafi staðið í stað. Þó poppa upp nógu mörg tilfelli þar sem dúóið rígheldur sömu dýnamík og eins og fylgir hefðum þessara mynda snýst fjörið einnig um liðsheildina, en ekki bara þá tvo.
Aukaleikarar hafa flest allir gefandi rugli við að bæta en fáir (fyrir utan viðkvæma manninn með ljáinn) eru eins kærkomnir og Samara Weaving og Brigette Lundy-Paine í hlutverki dætranna, Billie og Theodoru. Saman eru þær eins og snýttar úr sömu nösum og gætu að öllum líkindum borið saman uppi heila bíómynd.
Bill & Ted Face the Music geislar af ást og virðingu fyrir karakterunum og aðdáendunum og sýnir vel hvernig fara skal rétt að gömlum brögðum þegar sálarlaus peningagræðgi stýrir ekki tökuferlinu. Það tók líka tæpan áratug að sparka þessu verkefni af stað, sem gaf höfundum meira en nægan tíma til að krukka í efninu. Framvindan jaðrar við að vera oftroðin (enda bara rúmlega 80 mínútna pakki) og býr ekki yfir sama standard af súru hugmyndaflugi og fyrri myndir.
Í staðinn fara þeir Matheson og Solomon nostalgíuleiðina og remixa það sem hefur á undan komið, en með viðeigandi viðsnúningum og miklu meira að segja.
Á sinn undarlega hátt, og á jafn furðulegu ári og 2020, gæti Bill & Ted Face the Music vel verið með mikilvægari myndum þessa árs. Þrátt fyrir að vera fyrst og fremst fyrirmyndar vitleysa gengur hún út á að skemmta, læra, sameina, flippa, elska og vera æðisleg hvort við annað, ekki síst á tímum þegar æðri öfl setja allt á annan endann.