Heimsendir með hlýju

Alltaf þykir mér það jafnundarlegt að horfa á formúlubundnar bíómyndir sem að vísu byggja á ótrúlega ferskri grunnhugmynd, eins og í þessu tilfelli, þar sem á borðinu liggur þessi dæmigerða vegamynd um kostulegt par sem gæti hugsanlega þróað „óvæntar“ tilfinningar til hvors annars. En eins og titillinn gefur upp þá er bragðbætandi vinkillinn sá að óhjákvæmilegur heimsendir er að fara að skella á. Ekki hugsanlegur, heldur óhjákvæmilegur. Strax í byrjuninni er gefið upp að tilraunir til þess að eyða gleðispillandi loftsteininum hafa mistekist, sem væri eflaust lógíska útgáfan af endinum úr Armageddon ef NASA hefði í raun og veru sent bormenn af sveitalubbastéttinni út í geiminn. Ó, Michael Bay.

Það er örugglega hægt að ímynda sér verri leiðir til að eyða seinustu dögunum sínum en með Keiru Knightley sem förunaut, eða Steve Carrell, fyrir þær konur eru hrifnar af elskulegum lúðum. Áhorfandinn sættir sig annars við örlögin strax, en sem betur fer er farið í allt öfuga átt með dómsdagshræðsluna heldur en t.d. Melancholia gerði á síðasta ári, þar sem bros og hamingja var eins og eitthvað útdautt tungumál. Seeking a Friend for the End of the World er skemmtileg, notaleg en ekkert alltof eftirminnileg blanda af svörtum húmor og fallegri ástarsögu. Hún fer æðislega af stað og sýnir panikkuðu tilfinningar fólks á athyglisverðan og fyndinn hátt en þegar söguþráðurinn fer af stað byrjar ferskleikinn að rýrna svolítið. Ég skil ekki hvernig handritshöfundar fá það út að persónurnar þurfa til dæmis nauðsynlega að lenda tímabundið í fangelsi í svona bandarískum vegamyndum. Það er samt aðeins ein af mörgum klisjum sem spretta upp við og við.

Í kringum lokakaflana (og sérstaklega frá og með yndislega ljúfri notkun á laginu The Air That I Breathe) fer loksins eitthvað að hreyfa við manni af viti. Seint mun ég geta sagt að myndin hafi togað eitthvað fast í mínar köldustu hjartarætur en hún að minnsta kosti yljar manni ágætlega í góðar tíu mínútur eða svo. Leikararnir tveir selja þetta alveg og manni þykir þokkalega vænt um persónurnar. Sagan fer í gegnum sína eðlilegu rútínu en svíkur almennt ekki á þeim stöðum sem skipta mestu máli. Það hefði samt mátt vinna betur í bláendanum. Það er atriði sem ég get ímyndað mér að skilji töluvert meira eftir sig á blaði (jafnvel í bókinni sem myndin er byggð á) heldur en á skjánum, allavega í höndum þessa leikstjóra. Annars hörkufín frumraun sem felur ódýran framleiðslukostnað bara drulluvel. 10 millur er vel sloppið.

Steve Carell gerir lítið nýtt og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að Keiru Knightley finnist ágætt að taka sér af og til hvíld frá búningamyndum, en þau smellpassa samt í þessari litlu mynd. Þeirra neistaflug tekur fínt (en misjafnlega gott) handrit og gerir það betra og huggulegheitin eru m.a.s. svo fín að maður hættir að pæla í því hversu tilgangslaus hundurinn er sem fylgir þeim út um allt. Hann er bara settur inn sem dúllulegt skraut

Annars hlakka ég til að sjá framhaldið.

 
(7/10)