Síðan 2007 hafa kvikmyndaunnendur beðið í ofvæni eftir þriðju (og líklega síðustu) færslunni í gamanmyndabálk þeirra Edgar Wright og Simon Pegg The World’s End, en margir kalla þennan kvikmyndabálk félaganna annaðhvort ‘blóð & ís þríleikinn’ eða Cornetto-þríleikinn. Fyrir þá sem ekki vita er þríleikurinn samansettur úr gamanmyndunum Shaun of the Dead, Hot Fuzz, og hinni væntanlegu The World’s End.
Nýjasta plakat myndarinnar gefur til kynna að hér sé mynd af allt öðru tagi á ferðinni og má segja seríuna sverja sig örlítið í ætt við Evil Dead myndirnar sem skiptu um undirflokk með hverri kvikmynd en tilheyrðu allar að vissu leyti einum flokk. Fyrir seríu þeirra Wright og Pegg er það gamanmyndaflokkurinn en enginn söguþráður tengir myndirnar eins og í fyrrnefndri seríu Sam Raimi.
The World’s End fjallar í stuttu máli um breskan vinahóp sem á unga aldri hóf drykkju maraþon einn góðan veðurdag á bæjarkránni The World’s End. En nú eru meðlimir hópsins vaxnir úr grasi og einn úr hópnum smalar honum saman á ný fyrir næsta skref drykkjuleiksins, en inn í þessa atburðarás blandast yfirvofandi endir alheimsins.
Þeta er súr hugmynd sem lofar góðu, enda í hárréttum höndum. Það er hinn góðkunni Edgar Wright sem sér um leikstjórn og skrifar handrit ásamt Simon Pegg sem fer með aðalhlutverkið ásamt sálufélaga sínum Nick Frost. Restin af leikhópnum er heldur ekki af verri endanum en þar má nefna hobbitann og einkaspæjarann Martin Freeman, Rosamund Pike, og Paddy Considine.
Þrekvirkið verður frumsýnt í Bretlandi í ágústmánuði næsta árs. En nú langar mig einfaldlega að spyrja ykkur; hvor ræman eftir þá Wright og Pegg kitlar ykkur meira, Shaun of the Dead eða Hot Fuzz?