Vefsíðan The Wrap segir frá því að breski leikarinn Tom Hiddleston, sem leikur Loka í Thor myndunum og í The Avengers, eigi í viðræðum um að leika í endurgerð myndarinnar The Crow, eða Krákan, en Brandon Lee heitinn lék aðalhlutverkið í upprunalegu myndinni sem frumsýnd var árið 1994.
Spænski leikstjórinn F. Javier Guttierez mun leikstýra og Cliff Dorfman, handritshöfundur Warrior, er að skrifa handrit myndarinnar.
Tökur eiga að hefjast með haustinu samkvæmt vefsíðunni, en ekki er enn vitað hvort um ferska og nýja nálgun á sögunni verður að ræða eða hvort upprunalegu myndinni verður fylgt.
Hiddleston er nú þegar búinn að funda með framleiðendum myndarinnar og er búinn að prófa að farða sig fyrir hlutverkið, en frekari prófanir eru í farvatninu til að framleiðendur geti fullvissað sig um að hann sé rétti maðurinn í hlutverkið.
Samkvæmt frétt The Wrap þá eru framleiðendur hrifnir af bæði fjölhæfni leikarans og líkamlegu atgervi.