Hitler snýr aftur til Berlínar

hitler_image2Borgarbúum Berlínar var nokkuð brugðið þegar þeir sáu Adolf Hitler bregða fyrir á rölti um borgina í vikunni. Þeim til mikillar lukku þá var einungis um að ræða kynningarherferð fyrir kvikmyndina Look Who’s Back sem fjallar um Hitler í nútíma Þýskalandi.

Oliver Masucci fer með hlutverk Hitlers í myndinni sem og í kynningarherferðinni, en myndin er í anda gamanmyndarinnar Borat, með Sacha Baron Cohen í aðalhlutverki, þar sem menningarágreiningar og viðbrögð fólks við uppátækjum hans er aðalatriðið.

Myndin er byggð á fyrstu bók rithöfundarins Timur Vermes og hefur hún selst í bílförmum í Þýskalandi og er fáanleg í 40 löndum.

Eins og fyrr segir þá hefur þessi áhugaverða kynning á myndinni valdið miklum usla í Þýskalandi. Masucci er sagður hafa hrópað fúkyrðum að gyðingum og kallað skinnhausa litlar veimiltítur í hlutverki sínu sem Hitler.