Og nei! Ekki þessi með haltrandi lækninum.
Arrow Video í Bretlandi gefur góðan fyrirvara á væntanlegum útgáfum en seinni partinn í mars á næsta ári koma allar „House“ (1986-1992) myndirnar út í viðhafnarpakka á Blu-ray. Það er búið að biðja mikið um þessar í háskerpu og Arrow veldur ekki vonbrigðum með troðfullum pakka af aukaefni fyrir unnendur myndanna.
Draugahús voru ekki ný af nálinni árið 1986 en þau voru svo sannarlega efniviður sem hafði staðist tímans tönn. Fyrsta myndin í seríunni er nokkuð hátt skrifuð hjá hryllingsmyndaunnendum en hún býr yfir ansi góðri stemningu í bland við frekar villtan húmor. Hún tekur sig aldrei of alvarlega og það ku vera ástæðan fyrir því af hverju hún lifir eins góðu lífi og raun ber vitni. Fínir leikarar prýða myndina en hinn vanmetni William Katt (hvað þekktastur fyrir að hafa leikið hálfgerða ofurhetju í þáttunum „The Greatest American Hero“) leikur aðalhlutverkið og honum til halds og trausts eru Kay Lenz og „Cheers“ bjórþambarinn George Wendt.
Metsöluhöfundurinn Roger Cobb (Katt) erfir hús eftir frænku sína sem sagt er að sé reimt. Hann flytur inn með ansi þungan pakka sem hrjáir sálartetrið. Sonur hans hvarf sporlaust fyrir nokkru síðan, slæmar minningar frá Víetnam stríðinu sækja að honum og alger ritstífla kemur í veg fyrir að hann komi stafi á blað fyrir næstu bók sína. Svo auðvitað er húsið algerlega reimt og alls kyns furðuverur gera honum lífið leitt; m.a. hrörlegur stríðsmaður sem virðist eiga eitthvað sökótt við Roger.
Eitthvað við þessa. Hún er ferlega fyndin en býr yfir nokkrum atriðum sem fá hárin til að rísa.
„House II: The Second Story“ (1987) er bara vitleysisgangur frá upphafi til enda; tímaflakk, byssuóðar villta vesturs afturgöngur og risaeðlur koma við sögu en þessi á sér þó furðulega mikið af fylgjendum. Arye Gross úr „Ellen“ þáttunum leikur aðalhlutverkið en Bill Maher og póstburðarmaðurinn úr „Cheers“, John Ratzenberger, skjóta upp kollinum hér.
Eins mikið og ég tel mig vita um hryllingsmyndir skal ég þó viðurkenna að næstu tvær fóru alveg fram hjá mér og kom því þessi tilkynning um fjórar „House“ myndir mér í opna skjöldu. Hluti af ástæðunni er þó að þriðja myndin er einnig þekkt undir öðrum titli; „The Horror Show“ (1989) með þeim Lance Henriksen og Brion James. Þessi er eins konar andlegur bróðir „Shocker“ (1989) eftir Wes Craven því söguþráðurinn er ótrúlega svipaður; morðinginn Max Jenke (James) er sendur í rafmagnsstólinn en snýr aftur til hrella lögreglumanninn (Henriksen) sem kom honum í hann.
Þessi er ekki hátt skrifuð en tveir þungavigtarmenn í B-mynda heiminum halda henni ágætlega uppi og þeir sem eru ekki ýkja kröfuharðir ganga sæmilega sáttir frá. Myndin er alls kostar óskyld fyrri tveim myndunum en var skírð „House III“ fyrir markaði utan Bandaríkjanna. Það kom eigendum myndabálksins í bobba þegar þriðja myndin varð að vera nefnd…
…“House IV“ (1992). Aldrei séð þessa en umsagnir almúgans eru rausnarlegri en gagnrýnenda. Það getur verið góðs viti þar sem almenningur er með betri púls á þessari tegund mynda. William Katt snýr aftur sem Roger Cobb en ef marka má umsagnir þá er hann önnur persóna. Spes! Svo er víst syngjandi Pizza haus!!! Þessi hlýtur að vera þess virði að sjá.
Allar fjórar „House“ myndirnar fá viðhafnarútgáfu í pakka frá Arrow í Bretlandi en einungis fyrstu tvær myndirnar verða gefnar út í Bandaríkjunum. Það er vegna þess að réttindin fyrir þriðju myndina eru hjá Shout Factory sem gaf myndina út á Blu-ray árið 2013 undir titlinum „The Horror Show“. Vafalaust munu svo myndirnar fá staka útgáfu eftir að pakkinn hefur selst upp.