Gamanmyndin A Million Ways to Die in the West, með Liam Neeson, Charlize Theron, Seth McFarlane og Amanda Seyfried í aðalhlutverkum verður frumsýnd á Íslandi, föstudaginn 30. maí. McFarlane leikstýrir einnig myndinni, en hann er maðurinn á bakvið teiknimyndaþættina Family Guy og kvikmyndina Ted.
Að þessu sinni eru bandarískir vestrar viðfangsefni McFarlane og er þemað í myndinni á þann hátt að það sé hægt að deyja á milljón vegu í villta vestrinu. Allir vilja drepa mann og slysin geta átt sér stað við hvert tilefni og er maður því í stanslausri lífshættu.
A Million Ways to Die in the West fjallar um kindarlegan bónda að nafni Albert sem þorir ekki að taka þátt í byssubardaga og kærastan hans yfirgefur hann í kjölfarið. Þegar hann hittir konu frægs útlaga sem býðst til að kenna honum að skjóta úr byssu, þá sér bóndinn þarna leið til þess að vinna kærustuna til baka, en þess í stað verður hann smátt og smátt ástfanginn af konunni.
Málin vandast þegar útlaginn snýr aftur og vill konu sína aftur og engar refjar. Giovanni Ribisi leikur síðan Edward besta vin Alberts, en sá er einfaldur skósmiður sem hangir með kærustu sinni þó svo að hún neiti því alfarið að stunda með honum kynlíf, þó svo að hún vinni sem vændiskona og stundi þar með kynlíf með öllum öðrum en honum.
Myndin verður sýnd í Laugarásbíói, Smárabíói, Háskólabíói, Sam-Egilshöll, Borgarbíó Akureyri, Selfossbíó, Ísafjarðarbíó, Bíóhöllin Akureyri og Sam-Keflavík.