Ákveðið hefur verið að halda ótrauð áfram með Insidious hrollvekjuseríuna, og mun Insidious: Chapter 3 koma í bíó 3. apríl árið 2015.
Fyrsta Insidious myndin kom í bíó árið 2011 og fékk bæði góðar viðtökur hjá gagnrýnendum og áhorfendum, en myndin sló í gegn, og þénaði 54 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum. Myndin kostaði einungis 1,5 milljón dali, og því var gróðinn ævintýralegur.
Í september sl. kom svo mynd númer 2 út. Sú mynd kostaði ögn meira, eða 5 milljónir dala, en þénaði 83 milljónir dala. Ævintýrið heldur því áfram.
Menn ætla sér síðan að halda uppteknum hætti og setja álíka mikið / lítið fé í þriðju myndina og vonast eftir sömu velgengni. Sami handritshöfundur og skrifaði fyrstu tvær myndirnar snýr aftur, Leigh Whannell. James Wan, leikstjóri fyrstu tveggja myndanna, segist vera hættur að leikstýra hryllingsmyndum, og mætir því eðlilega ekki aftur til leiks í þá þriðju. Framleiðendur verða því að leita annað eftir leikstjóra í þetta skiptið.