Hin stórgóða danska mynd Jagten í leikstjórn Thomas Vinterbergs hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Ákvörðunin var tilkynnt rétt í þessu á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Ósló.
Í rökstuðningi dómnefndar segir:
„Við fyrstu sýn er myndin „Jagten“ í leikstjórn Thomas Vinterbergs auðskilinn harmleikur sem bæði Grikkir til forna og Hollywood nútímans hefðu getað sagt frá. En undir yfirborði einfaldrar frásagnar af manni sem er ranglega sakaður um að misnota börn eru margir flóknir þræðir sem knýja áhorfendur til íhugunar og umræðu. Í mynd Vinterbergs er „jagten“ (veiðin, eftirförin) notuð sem táknmynd til að kanna hvernig einstaklingur getur skyndilega orðið fyrir ofsóknum af hendi samfélags sem að öðru leyti er eðlilegt og vill vel. Sagan er í sjálfu sér ótrúleg, en hún nýtur góðs af kraftmiklum leik Mads Mikkelsens, heillandi tónlist og stemmningsfullum myndum.“
Leikstjóri myndarinnar „Jagten“ er eins og fyrr sagði Thomas Vinterberg. Hann skrifaði jafnframt handrit myndarinnar í samstarfi við Tobias Lindholm. Framleiðendur myndarinnar eru Sisse Graum Jørgensen og Morten Kaufmann. Myndin hefur verið valin sem framlag Dana til Óskarsverðlaunanna.
Þremenningarnir Vinterberg, Lindholm og Kaufman gerðu jafnframt myndina „Submarino“ sem fékk Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2010.
Verðlaunin nema 350 þúsundum danskra króna. Verðlaunahafinn frá því í fyrra, Ruben Östlund, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn sem haldin var í Óperunni í Ósló í dag, miðvikudag.