Um páskana verður frumsýnd glæný þáttaröð með Þórhalli (Ladda) Sigurðssyni í lykilhlutverki en þættirnir bera heitið Jarðarförin mín og má nú sjá fyrsta sýnishorn úr seríunni. Þættirnir verða sex talsins og eru framleiddir af Glassriver Productions.
Laddi fer með hlutverk manns sem greinist með ólæknandi heilaæxli sama dag og hann kemst á eftirlaun. Hann hefur eytt síðustu áratugunum í tilgangslausa rútínu, fjarlægst fjölskyldu sína og ekki lifað lífinu sem skildi.
Nú eru tvær vikur þangað til hann fer í skurðaðgerð sem mun að öllum líkindum draga hann til dauða. Hann ákveður að bæta upp fyrir tapaðan tíma með því að halda sína eigin jarðarför og vera sjálfur viðstaddur. Það er samt ekki eins einfalt og það hljómar. Fyrrverandi eiginkonan, einkasonurinn og tengdadóttirin hafa lítinn skilning á þessum áformum, hvað þá barnabarnið sem dýrkar afa sinn og getur ekki hugsað sér að missa hann. Svo flækist málið enn frekar þegar ástin kviknar á ný milli hans og fyrrverandi kærustu, en hún er einmitt presturinn sem á að jarðsyngja hann.
Þættirnir eru byggðir á hugmynd Jóns Gunnars Geirdals, frasakóngs og athafnamanns, en þættirnir eru sagðir vera ljúfsárir; fyndnir og alvörugefnir. Koma þau Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, Baldvin Z, Sóli Hólm og fleiri að handritsgerð seríunnar.
Jarðarförin mín kemur í heild sinni inn í Sjónvarp Símans Premium um páskana.