Árið 2015 hófst undirbúningur hjá Universal Television og Blumhouse Productions, að gerð sjónvarpsþáttaraðar fyrir Syfy sjónvarpsstöðina, byggða á kvikmyndaklassíkinni Tremors, sem margir muna væntanlega eftir, og var með Kevin Bacon í aðalhlutverki, hlutverki Valentine McKee. Bacon ætlaði að mæta aftur til leiks og endurtaka leikinn.
Prufuþáttur var gerður í leikstjórn Vincenzo Natali ( Hannibal ), og hann gerðist 25 árum eftir atburðina í kvikmyndinni, sem var frumsýnd árið 1990. Þegar skrímslin, risa-mannætuormar sem ferðast neðanjarðar, svokölluð Graboids, snúa aftur í eyðimerkurbæinn Perfection í Nevada, þá hitta þau fyrir hinn mun eldri, og nú áfengisssjúka, Valentine McKee, sem rétt einu sinni þarf að bjarga mannkyninu, og drepa skrímslin.
Allt gekk vel með prufuþáttinn þar til Kevin Bacon sjálfur tilkynnti á dögunum að Syfy hefði hætt við að taka þættina til sýningar. Hann sagði á Instagram reikningi sínum: „Mér þykir leitt að tilkynna að draumur minn um að snúa aftur í Perfection, mun ekki verða að veruleika. Þrátt fyrir frábæran prufuþátt, þá ákvað stöðin að hætta við. Þakkir til allra í leikaraliðinu, og allra í tökuliðinu sömuleiðis. Og passið ykkur á GRABOIDS!“
Kíktu á stiklu fyrir prufuþáttinn hér að neðan. Það má taka undir með Bacon, það er synd að þættirnir fái ekki að komast fyrir sjónir almennings!