Ný kitla fyrir væntanlega Netflix kvikmynd Óskarsverðlaunaleikkonunnar Angelina Jolie, First they Killed My Father, er komið út. Myndin fjallar um þjóðarmorðið í Kambódíu.
Jolie byggir myndina á sjálfsævisögu kambódíska aðgerðasinnans Loung Ung.
Í bókinni er lýst þjáningum sem fólk varð fyrir af hendi kommúnistahreyfingarinnar Rauðu Khmeranna á áttunda áratug síðustu aldar, en í ofsóknum þeirra týndu rúmlega tvær milljónir manna lífinu, þar á meðal foreldrar og tvær systur Loung.
Myndbandið hefst með þessum orðum: „Á árunum á milli 1975 – 1979 þá drápu Rauðu Khmerarnir undir stjórn einræðisherrans Pol Pot, nærri fjórðung kambódísku þjóðarinnar.“
Angelina segir: „Miðpunktur sögunnar er frásögn Loung, en þetta er saga af stríði séð með augum barns, en þetta er einnig saga lands.“
„Þetta er í fyrsta skipti sem þessu stríði eru gerð skil á þessum skala.“
Jolie, sem tók upp spennumyndina Tomb Raider í Kambódíu á sínum tíma, ættleiddi fyrsta son sinn, Maddox, frá munaðarleysingjahæli í landinu árið 2002.
Hún sagði breska blaðinu Guardian að Maddox hafi sannfært hana um að gera myndina: „Hann var sá sem ýtti á mig og sagðist vera tilbúinn að vinna í þessu með mér. Hann las handritið, hjálpaði til við að skrifa minnisatriði, og sat verkefnafundina.“
First They Killed My Father verður sýnd á Netflix síðar á árinu.
Kíktu á myndbandið hér fyrir neðan: