2012 verður árið hans Joss Whedon. Umtalið á hinni væntanlegu The Cabin in the Woods (sem hann meðskrifar og framleiðir) hefur hingað til verið svakalega pósitívt á erlendum kvikmyndasíðum og svo að auki mun hann rústa Marvel-myndum seinustu ára með þeirri stærstu sem hefur sést hingað til.
The Cabin in the Woods og The Avengers eru eiginlega báðar bara rétt handan við hornið (Kvikmyndir.is hefur m.a.s. áhuga á því að forsýna Cabin), og Whedon hefur verið duglegur að dæla út skemmtilegum fréttum til að trekkja upp nördann í manni ennþá meir. Eins og maður sé ekki þegar nógu andskoti spenntur.
Að þessu sinni hefur Whedon óopinberlega tilkynnt heildarlengd myndarinnar. Leikstjórinn var spurður fyrir stuttu í viðtali við Collider hvort aðdáendur gætu síðar á árinu átt von á „Director’s Cut“ útgáfu sem yrði talsvert lengri en bíóútgáfan. Whedon svaraði því neitandi og hafði þetta að segja:
„Það verður engin sérstök leikstjóraútgáfa. Ég trúi sterklega á það að eina sanna leikstjóraútgáfa myndar eigi að vera sú sem er sýnd í bíó. Fyrsta útgáfan af myndinni sem ég setti saman var þriggja tíma löng og núna hef ég skorið þá útgáfu niður í tvo tíma og fimmtán mínútur. Ég er rosalega ánægður með myndina núna. Mig langaði alltaf að fara yfir tveggja tíma markið en fara ekki langt yfir tvo og hálfan tíma. Það myndi aldrei ganga að búa til fullnægjandi Avengers-mynd sem yrði rétt svo tveir klukkutímar. Stærðin er það mikil og leikararnir það margir að það sú lengd kom aldrei til greina. Hver og einn þarf að fá sitt móment. Ég verð reyndar mjög reiður þegar ég horfi á rómantískar gamanmyndir sem eru lengri en tveir tímar. Þess vegna vil ég aldrei setja meira í myndina mína heldur en þarf.“
The Avengers er væntanleg til Íslands í lok apríl, viku á undan bandaríkjunum.