Heimildir Variety kvikmyndaritsins herma að Spotlight leikarinn Michael Keaton eigi í viðræðum um að leika illmennið í næstu Spider-Man mynd, Spider-Man: Homecoming, þar sem Tom Holland fer með hlutverk Köngulóarmannsins.
Keaton er ekki ókunnugur myndasöguheiminum, þó að hann hafi ekki leikið í Marvel mynd áður. Hann lék DC Comics teiknimyndahetjuna Batman í mynd Tim Burton árið 1989.
Marisa Tomei mun leika May frænku og Zendaya mun leika hlutverk sem ekki er vitað hvað er ennþá. Óvíst er hvaða óþokka Keaton myndi leika.
Jon Watts leikstýrir myndinni sem fjallar um miðskólaár Peter Parker.
Spider-Man í túlkun Holland mun þreyta frumraun sína í Captain America: Civil War, sem væntanleg er í bíó 29. apríl nk. Spider-Man: Homecoming mun koma í bíó 7. júlí, 2017, en tökur hefjast nú í sumar.
Síðustu myndir Keaton eru Óskarsverðlaunamyndirnar Spotlight og Birdman, Næsta mynd hans er The Founder, þar sem hann leikur stofnanda McDonalds hamborgarakeðjunnar, Ray Kroc.