Kisulóra frumsýnd á nýrri vefsíðu Kattarins

Það er þónokkuð í að spinoff teiknimyndin úr Shrek, Stígvélaði kötturinn, verði frumsýnd, þ.e. 4. nóvember 2011, en framleiðandinn DreamWorks Animation er samt þegar búinn að setja í loftið opinbera vefsíðu myndarinnar.

Á vefsíðunni sjá menn í fyrsta sinn kærustu stígvélaða kattarins, Kitty, eða kisulóru, sem Salma Hayek mun tala fyrir.

Sagan um stígvélaða köttinn segir frá ævintýrum hins kostulega og hugrakka Kattar sem leikinn er af Antonio Banderas. Í myndinni slæst hann í för með Humpty Dumpty, eða eggjakallinum, sem leikinn verður af Zach Galifianakis, og svo fyrrnefndri kisulóru.

Þríeykið heldur upp í mikinn leiðangur til að stela hinni víðfrægu gullgæs, sem verpir gulleggjum.

Chris Miller leikstýrir og skrifar handrit myndarinnar ásamt Tom Wheeler.

Smelltu hér til að fara á heimasíðu teiknimyndarinnar.