Joseph Gordon-Levitt, sem er þekktur fyrir leik sinn í myndum eins og The Dark Knight Rises og 500 Days of Summer, ætlar að taka klippiskærin upp úr skúffunni og stytta fyrstu mynd sína sem leikstjóri, Don Jon´s Addiction.
Levitt hyggst klippa burt grófustu kynlífsatriðin úr myndinni, sem er rómantísk gamanmynd í sjálfstæðri framleiðslu, til að geta fengið R stimpilinn fyrir sýningar í bíóhúsum í Bandaríkjunum, en myndin var frumsýnd á nýafstaðinni Sundance kvikmyndahátíð.
„Já, ég býst við að við þurfum að gera það og ég mun byrja á því um leið og ég kem til baka,“ sagði leikstjórinn við fréttamann The Hollywood Reporter á blaðamannafundi á kvikmyndahátíðinni í Berlín þar sem myndin er nú í sýningum.
Myndin er nútímaútgáfa af sögunni um gleðipinnann Don Juan, sem Gordon-Levitt leikur, en klámfíkn hans leiðir hann út í sífellt djarfari tilraunir á kynlífssviðinu. Það er því spurning hvort að það muni ekki eyðileggja myndina að skera burt kynlífsatriði.
Gordon-Levitt neitar því.
„Ég held að það sé mikilvægt að hafa þessi atriði með, en í rauninni er það ekki endilega mikilvægt nákvæmlega það sem maður sér,“ bætti Gordon-Levitt við um niðurskurðinn sem er eingöngu gerður til að fá betri dreifingu og meiri aðsókn.
„Það sem er mikilvægt er hrynurinn í myndinni, endurtekningin á athöfnun Don Jon, það sem hann gerir aftur og aftur og aftur.“
Aðrir helstu leikarar í myndinni eru Scarlett Johansson, Julianne Moore og Tony Danza.
Myndin hlaut mikið og gott umtal á Sundance hátíðinni og dreifingaraðilinn Relativity Media keypti réttinn til að dreifa myndinni á fjórar milljónir Bandaríkjadala, með því skilyrði að tryggt yrði að R stimpill myndi fást á myndina.
Hlustaðu á Joseph Gordon-Levitt ræða um myndina á Sundance hátíðinni, við blaðamann Entertainment Weekly:
Ástæða þess að R stimpill er nauðsynlegur er að NC-17 stimpillinn myndi að miklu leyti koma í veg fyrir almennar sýningar á myndinni þar sem mörg bíóhús forðast að sýna slíkar myndir, og þar með bregst aðsóknin og engir peningar koma í kassann.
Gordon-Levitt segir að fyrir honum sé Don Jon meira ástarsaga en hitt, dulbúin sem gamansaga fremur en innsýn í kynferðislegar yfirsjónir.