„Ég gekk í herinn. Ég fór í burtu sem hermaður,“ segir persóna Ben Affleck, sonur lögregluforingjans í Boston, í byrjun fyrstu stiklu spennumyndarinnar Live By Night. „Ég kom heim sem útlagi,“ bætir hann við.
Auk þess að leika aðalhlutverkið í myndinni þá bæði skrifar Affleck handrit Live By Night og leikstýrir myndinni, en myndin er fyrsta kvikmynd hans sem leikstjóra eftir að hann leikstýrði þreföldu Óskarsverðlaunamyndinni Argo frá árinu 2012.
Eftir að Affleck var ráðinn í Live By Night, þá hefur hann tekið að sér að leika Batman í þremur myndum, þar af einni sem hann bæði leikstýrir og skrifar handrit að, þannig að það er í mörg horn að líta hjá Affleck þessi misserin.
Live By Night er gamaldags mafíumynd þar sem Affleck er bófi á bannárunum í Boston sem hefur ýmislegt á samviskunni. Aðrir helstu leikarar eru Brendan Gleeson, Elle Fanning, Zoe Saldana, Titus Welliver og Sienna Miller.
Myndin kemur í bíó hér á landi 13. janúar nk.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: