Konungsríkið bíður Cuarón

Eftir að hafa rannsakað óravíddir geimsins í ofursmellinum Gravity, þá ætlar Jonas Cuarón, sem skrifaði handritið að Gravity í félagi við föður sinn, leikstjórann Alfonso Cuarón, að stinga sér í hyldýpi úthafsins og skrifa handritið að The Lost City, sem fjalla á um týnda landið Atlantis. Framleiðandi er Warner Bros kvikmyndaverið.

gravity

Söguþráðurinn er óljós ennþá, en heimildir Variety kvikmyndaritsins herma að myndin muni taka söguna um hið goðsögulega konungsríki nýjum tökum.

Warner Bros hafði verið að skoða um hríð hvaða verkefni það vildi vinna næst með Cuarón, og þessi mynd hefur lengi komið sterklega til greina. Það eina sem var spurningamerki við var hvernig verkefnið myndi passa með öðrum verkefnum Cuarón, en hann er að fara að leikstýra myndinni Desierto á næstunni.

Desierto er með Gael Garcia Bernal í aðalhlutverki, en faðir Cuarón, Alfonso, kemur einnig að þeirri mynd. Einnig er frændi þeirra feðga, Carlos með þeim í liði, en Carlos og Alfonso koma að framleiðslu myndarinnar.

Warner Bros hefur mikla trú á The Lost City, en á einum tímapunkti var leikstjórinn Peter Jackson ( The Hobbit ) að skoða það.  Hans aðkoma gekk þó ekki upp á endanum, en sýnir þó hve mikla trú myndverið hefur á Jonas, nú eftir velgengni Gravity.