Krimmar með kjaft!

Lawless er eins og hún sé hönnuð fyrir mig. Hörð, grípandi, skemmtileg og smávegis öðruvísi gangster mynd sem hefur fullt af þursasterkum hápunktum og leikaraval þar sem tekist hefur að gera hér um bil hvern og einn einasta aðila að hreinræktuðum töffara. Ég get nú reyndar ekki alveg sagt að Shia LaBeouf passi í þann flokk, en hann vinnur sér inn sína eigin góðu punkta fyrir að bögga mann ekki með því sem hann er þekktur fyrir að gera. Þvert á móti sýnir hann nokkuð ágætlega að það er ýmislegt meira á bakvið hann en bara hæper-egó, kaldhæðni, one-linerar og tilhlaup. Hann hefur sýnt þau merki áður en hér kemst hann í miklu hærra álit (þó svo að drengurinn hafi aldrei beint farið í mínar fínustu, eins og hjá mörgum öðrum). En í versta falli, ef einhverjum þykir hann óþolandi ætti hann að gleðjast við þá tilhugsun að „LaBeef“ er laminn í logandi klessu í þessari mynd áður en hálftími er liðinn. Og í Lawless er engum aðeins beint ofbeldi, heldur rústað! Þeir sem sáu The Proposition vita mætavel að þessi leikstjóri er ekkert að hlífa skepnuskapnum fyrir áhorfendum sínum. Ég geri líka ráð fyrir því að Nick Cave eigi stóran þátt í hörkunni.

John Hillcoat er hægt og rólega að brjótast út úr arthouse skelinni sinni, sýnist mér, en er þó ekki alveg stiginn alla leið inn í mainstream-ið. Engu að síður er hann gæi sem ég hef mikinn áhuga að fylgjast með í komandi framtíð. Hann kvikmyndar ótrúlega flotta ramma og veit alveg hvernig á að meðhöndla reynda leikara þannig að þeir komi enn betur út en maður hélt að væri möguleiki á. Lawless er ekki eins dásamlega sveitt og skítug og The Proposition eða The Road, en fyrir mitt leyti heldur hún betri dampi. Hún er aðgengilegri en klárlega meira töff, alla leið. Hillcoat passar líka alltaf upp á það að liggja ekki of lengi í ofbeldinu og notar það eingöngu til að styrkja drifkraftinn í sögunni frekar en að skemmta sjálfum sér. Það sem gerir Lawless algjörlega meðmælisins virði eru persónurnar (m.a.s. þær grunnu) og einfaldleikinn í sögunni sem tvinnir þær saman. Myndin er með svakalegan kjaft en á bakvið það allt saman er alls ekki langt í hlýjuna. Leikararnir þykja mér líka svo fantaflottir að það þýðir ekkert annað en að límast við hverja og einustu senu þar sem þeir fá að njóta sín. Og það er frekar oft.

LaBeouf er góður í sakleysislega krúttleika sínum en hann á því miður ekkert í meistaranna sem umkringja hann. Þeir virðast allir fíla sig í botn, enda ekki skrítið þegar töffaraskapurinn er svona mikill, nánast smitandi. Það þýðir náttúrulega ekkert að ræða um Tom Hardy, því sá maður virðist ómögulega kunna að brillera ekki þegar hann heldur á bestu spilunum. Fyrir utan það að vera ávallt frábær og áreiðanlegur leikari (jafnvel í húmorslausu miðjumoði!) er hann einfaldlega bara einn harðasti maðurinn á lífi í dag. Það er ekki einu sinni hægt að mótmæla þessu því nafnið Tom Hardy er beinþýtt sem Tommi Harði úr Töffnesku, þar sem skýringin er: „stór og mikill maður sem enginn skal abbast upp á.“ Hann fær allavega nóg af nóg af góðum atriðum, sem gildir einnig um Guy Pearce. Gary Oldman hefði mátt fá meira að gera, en ef það er einhver maður sem kann að gera mikið úr litlu, þá er það gamli Gary.

Síðan geislar alveg þvílíkt af hinni dásamlegu Jessicu Chastain. Hún er sjúklega örugg og allan tímann svo athyglisverð til áhorfs. Í þokkabót hefur hún aldrei verið kynþokkafyllri og í hennar samanburði gæti manni ekki verið meira sama um Miu Wasikowska. En hún er nokkuð fín annars. Pearce stelur samt eiginlega allri blessaðri bíómyndinni sem hugsanlega aumingjalegasti töffari undanfarinna ára, og í “fífl-sem-mig-langar-að-kirkja-hægt-og-rólega” deildinni er hann eflaust einn sá hataðasti karakter sem ég hef séð síðan frú Carmody hélt ekki kjafti í The Mist, ef ekki þá úrhrakið sem Jeffrey Donovan lék í Changeling. Pearce, með sinn ógeðfellda snobb svip (og engar augabrúnir), tapar sér alveg í lágstemmdum ofleik sem virkar fullkomlega. Með þessum karakter er Hillcoat að byggja upp væntingar hjá manni að eitthvað ljótt og brútalt þurfi að koma fyrir hann í lokin og verður áhorfandinn í rauninni bara sjálfur að sjá hvort hann standi við það eða ekki.

Allt sem mig langaði til að fá út úr Public Enemies á sínum tíma fékk ég mun betur út úr Lawless, en það kemur einungis frá gangster-unnandanum í mér. Myndin er glæsilega skotin, mátulega „intense“ og hittir aldrei á dauðan kafla á þessum tveimur tímum þótt róleg sé. Það er ýmislegt sem hefði betur mátt snyrta (og fúlt er hversu útundan Jason Clarke er úr hópnum) en veiku hlekkirnir koma sjaldan í veg fyrir brenglað gott afþreyingargildi þegar öllu er á botninn hvolft. Ef það er ekki haugur af hágæðamyndum á leiðinni á næstu mánuðum þá segi ég að þetta sé ein af betri myndum ársins 2012. Að minnsta kosti eru atriði í henni sem munu standa upp úr árinu. Júllurnar á Chastain komast rétt svo inn á þann langa lista.


(8/10)