Paul gamli Hogan, sem sló í gegn í hlutverki krókódíla Dundee í þremur myndum um þennan ástralska náttúru-töffara, er ekki í góðum málum fjárhagslega.
Í viðtali við sjónvarpsþáttinn A Current Affair segist Hogan ekki einu sinni geta borgað 10% af skattaskuld sem hann skuldar yfirvöldum í heimalandinu Ástralíu.
Þetta var fyrsta viðtalið sem Hogan veitti eftir að áströlsk yfirvöld kyrrsettu hann í landinu vegna margmilljóna dollara skattaskuldar.
Skattayfirvöld í Ástralíu hafa deilt við Hogan í fimm ár í Ástralíu og í Bandaríkjunum, vegna gagna sem benda til þess að hann hafi notað aflandsreikninga fyrir tekjur sem hann vann sér inn eftir að hann sló í gegn sem krókódíla Dundee árið 1986.
Hogan segir yfirvöld vera á nornaveiðum og níðist á honum af því að hann er frægur.
Skattayfirvöld segja að Hogan skuldi þeim skatta af 34 milljónum Bandaríkjadala ( 4 milljörðum íslenskra króna ) . Hogan neitar því að hafa gert eitthvað rangt og neitar að viðurkenna skattareikninginn.
Hogan segist ekki vera eins ríkur og fólk haldi. „Ég hef ekki einu sinni efni á því að greiða 10% af því sem þeir vilja að ég borgi,“ sagði Hogan í viðtalinu.
Hogan er nú orðinn 70 ára gamall og býr í Los Angeles. Hann varð fyrst frægur fyrir að leika í sjónvarpsauglýsingum.
Fræg sena úr Krókódíla Dundee:


