Bandaríski leikarinn góðkunni, Kurt Russell, er svo sannarlega í hátíðarskapi því hann hefur tekið að sér hlutverk í nýrri jólamynd frá streymiveitunni Netflix þar sem hann mun leika jólasveininn. Russell sást síðast í tveimur af stærstu myndum ársins, Guardians of the Galaxy Vol. 2 og The Fate of the Furious.
Jólamyndin, sem hefur verið titluð 12/24, mun fjalla um systkini sem reyna að ná myndbandi af jólasveininum til þess að sanna það að hann sé raunverulega til. Allt fer á versta veg því að sveinki brotlendir hreindýrasleðanum sínum beint fyrir framan nefið á þeim og er það slys þeim að kenna. Ábyrgðin lendir því á systkinunum að koma jólasveininum aftur af stað áður en jólin hefjast.
Hin ungu og efnilegu Darby Camp, sem lék eftirminnilega í þáttunum Big Little Lies, og Judah Lewis, en hann lék í The Babysitter, fara með hlutverk systkinanna.
Framleiðandi myndarinnar, Chris Columbus, er þekktur fyrir jólamyndir sínar og hefur hann t.a.m leikstýrt upprunalegu Home Alone-myndunum og síðan framleiddi hann Arnold Schwarzenegger-myndina Jingle all the Way. Leikstjóri myndarinnar er Clay Kaytis, en hann leikstýrði síðast The Angry Birds Movie.
Tökur á myndinni hefjast í janúar og er stefnt að frumsýningu jólin 2018.