Kvikmyndadagar í Kringlunni – Stiklur!

Á morgun, miðvikudaginn 11. september hefjast kvikmyndadagar í Kringlunni en sýndar verða þrjár ólíkar en afar áhugaverðar myndir; MUD, To The Wonder og Midnight’s Children. Kvikmyndadagarnir standa til 26. september.

Mud

Mud Movie

Mud er eftir leikstjórann Jeff Nichols (Take Shelter) og hefur henni m.a. verið lýst sem nútímaútgáfu af sögu sem hefði getað verið eftir Mark Twain. Jeff skrifar sjálfur handritið og hefur myndin hlotið afburðadóma, bæði sagan og ekki síður stórleikur Matthews McConaughey og hinna ungu mótleikara hans, Tyes Sheridan og Jacobs Lofland.

Mud gerist við Mississippifljót. Tveir fjórtán ára piltar, þeir Ellis og Neckbone, uppgötva að í eyju úti í ánni hefur flóttamaður sem kallar sig Mud falið sig. Í ljós kemur að hann er eftirlýstur fyrir morð en það sem honum sjálfum er efst í huga er að hitta aftur unnustu sína, Juniper.

Svo fer að óvenjuleg vinátta myndast á milli flóttamannsins og piltanna tveggja sem á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir þá alla og aðra sem við sögu koma.

Eins og fram kemur í tilkynningu frá Sambíóunum þá var MUD tekjuhæsta mynd í Bandaríkjunum á þessu ári sem framleidd var af sjálfstæðum aðilum.

Mud var tilnefnd til Gullpálmans á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

To the Wonder
To the Wonder er nýjasta mynd leikstjórans og handritshöfundarins Terrence Malick sem gerði m.a Badlands, Days of Heaven, The Thin Red Line og nú síðast The Tree of Life. Í aðalhlutverkum eru þau Ben Affleck, Olga Kurylenko, Javier Bardem og Rachel McAdams og er óhætt að segja að þau sýni öll á sér nýjar hliðar í túlkun sinni á óvenjulegum persónum við óvenjulegar aðstæður.

Hér segir frá þeim Neil og Marinu sem hittast fyrst í París og verða yfir sig ástfangin hvort af öðru. Svo fer að Neil býður Marinu að koma með sér á heimaslóðir sínar Í Oklahoma þar sem sérkennileg vandræði byrja fljótlega að láta á sér kræla. Við kynnumst prestinum Quintana sem strögglar í trúnni og þegar vinkona Neils úr fortíðinni blandast inn í málin tekur atburðarásin óvenjulega stefnu sem spurning er hvort leiði til góðs eða ills …

To the Wonder var tilnefnd til Gullna ljónsins á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Midnight’s Children
Verðlaunamyndin Midnight’s Children eftir leikstýruna Deepa Mehta (Water) er gerð eftir samnefndri bók Salmans Rushdie sem einnig skrifar handritið. Þetta er gríðarlega margbreytileg, skemmtileg, djúp og áhrifarík saga sem hlotið hefur margháttuð verðlaun, m.a. hin virtu Bookerverðlaun árið 1981.

Sagan hefst árið 1949, nánar tiltekið á þeirri stundu sem Indverjar fá sjálfstæði frá Bretum. Þá fæðist lítill drengur sem gæddur er óvenjulegum hæfileikum sem eiga eftir að þroskast með honum næstu árin og gera hann að nokkurs konar leiðtoga þeirrar kynslóðar sem fæðist í upphafi hinnar nýju indversku aldar sjálfstæðis sem krafðist bæði fórna og vægast sagt óvenjulegra málamiðlana.

Midnight’s Children var tilnefnd til níu Genie-verðlauna (kanadísku kvikmyndaverðlaunin), þar á meðal sem besta mynd ársins, og hlaut þau fyrir besta handritið og besta leik í aukahlutverki kvenna (Seema Biswas)

Stikk: