Þriðjudaginn 4.september næstkomandi verður tilkynnt hvaða kvikmyndir keppa um Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs ársins 2012. Svinalangorna (e. Beyond) eftir Pernilla August hlaut verðlaunin í fyrra og danska myndin Submarino hlaut verðlaunin árið 2010. Aðrar myndir sem hafa unnið þessi virtu verðlaun eru m.a. Andkristur eftir Lars von Trier (2009) og Listin að Gráta í Kór (2007).
Þriggja manna dómnefnd (sem tilnefnd er af menntamálaráðuneyti) í hverju norrænu ríki fyrir sig tilnefnir þá kvikmynd sem keppir fyrir landið. Eftir að tilkynnt hefur verið um þær fimm norrænu kvikmyndir sem tilnefndar eru, hittist norræn dómnefnd til þess að greiða atkvæði og ákveða verðlaunahafa ársins. Hvert land á einn fulltrúa í norrænu dómnefndinni. Tilkynnt verður um verðlaunahafa Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2012 í október og verðlaunin verða síðan afhent á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki föstudaginn 2. nóvember.
Stefnt er að því að halda norræna kvikmyndahátíð hérlendis í september þar sem fimm tilnefndu myndirnar verða sýndar ásamt 4-5 nýjum sérvöldum myndum frá Norðurlöndunum.