Kvikmyndir.is forsýnir The Dark Knight Rises!

Júlímánuðurinn í ár verður sérstakur Batman-mánuður hér inná Kvikmyndir.is og við hendum þemanu í gang með frábærri tilkynningu, rétt eins og við munum klára það með stæl, látum og alvörubíói. Herlegheitin verða af öllum stærðum og gerðum og er allt þetta gert til að búa bíógesti undir lokamyndina í einhverjum virtasta þríleik sem hefur litið dagsins ljós frá því að Miðgarður var seinast opinn.

Í umræddum Batman-mánuði verður samt ekki alfarið fjallað um Christopher Nolan eða hans túlkun á Blökunni, heldur verða alls konar Blaka-tengdir pistlar í boði ásamt topplistum, með/á móti innslögum og kannski fáeinum umfjöllunum um gamla efnið sem mörgum er í dag alveg sama um (aumingja Burton og Schumacher).

Ef þú, lesandi góður, lumar kannski á þér skemmtilegum Batman-tengdum skoðunum sem þú vilt koma sérstaklega á framfæri, sendu mér þá tölvupóst á tommi@kvikmyndir.is, segðu hvað þig langar til að gera og það er aldrei að vita nema við birtum eitthvað eftir þig. Því fleira, því hýrra.

Svo verða fáeinir leikir í gangi út mánuðinn í tengslum við myndina. Því miður munum við ekki gefa boðsmiða á forsýninguna okkar en það er aldrei að vita nema við bjóðum upp á eitthvað annað sem er alls ekki síðra.

En ræðum nú aðeins þessa stórskemmtilegu forsýningu! Og áður en þið farið að hamra á kommentsvæðinu með sömu spurningunni („Af hverju er þetta ekki í Egilshöll??“) þá vil ég taka það skýrt fram að það fékkst ekki að sýna myndina á öðrum tíma heldur en var valinn á endanum. Föstudaginn, þann 20. júlí, verður haldin opin miðnæturforsýning (á s.s. aðfaranótt Laugardags, svo það sé örugglega á hreinu) í Egilshöllinni og strax í kjölfarið fleiri opnar forsýningar út alla helgina í öðrum bíóhúsum. Endilega tryggið ykkur miða á þær í tíma (því þetta mun allt seljast bráðum upp!) eða hafið þetta a.m.k. á bakvið eyrað.

Kvikmyndir.is forsýningin mun aftur á móti vera með öðruvísi sniði og ef það trekkir upp áhuga þinn, þá er hægt að lofa þér því að við munum ganga alla leið með þessa sýningu.

Mundu daginn. Föstudagurinn 20. júlí kl. 00:15 í Sambíóunum, Álfabakka. Þá ætlum við að rúlla The Dark Knight Rises í gegn, hlélausri og með fullum krafti (Power, takk fyrir!). Einnig verður okkar yndislega búningaþema í gangi þetta kvöld, þar sem við nördarnir viljum helst kveðja þennan þríleik með viðeigandi húllumhæi. Þeir sem vilja eru hvattir til þess að taka þátt í okkar stórskemmtilega „Mættu sem þinn uppáhalds Batman-karakter“ þema og verða vægast sagt vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem koma í flottustu búningunum. Við munum kynna þessa gripi á næstunni. Trúið mér, ykkur mun langa í þá!

Tryggðu þér miða á þessa legendary forsýningu hér. Miðaverðið er 1550 kr. Við munum tilkynna það á Facebook-síðunni okkar þegar það selst upp.

Kíkið svo aftur á stikluna, bara til þess að drekkja inn þá hugsun að þessa mynd verður hægt að sjá eftir 22 daga.


(PS. Ef þið viljið kyrja með þessu geðsjúka „lagi“ sem heyrist í gegnum alla traileranna, þá er textinn „Deh-say dehsay, bah-sah-rah bah-sah-rah“ – gangi ykkur vel með það!)