Kvikmyndir.is og Myndir mánaðarins á Comic-Con

Næstu daga, 7 tímabelti í burtu, í San Diego á vesturströnd Bandaríkjanna, verður myndasögu- og kvikmyndahátíðin Comic-Con haldin með pompi og prakt. Þetta er ein stærsta ráðstefna og hátíð tengd kvikmyndum í heiminum, enda eru öll stóru stúdíóin með íburðarmiklar kynningar á væntanlegu efni sínu á hátíðinni. Í fyrsta sinn verður íslenskur fjölmiðill með almennilegan fréttaflutning af þessari merku hátíð en Myndir mánaðarins sendu tvo blaðamenn, ritstjórann Erling Grétar Einarsson og blaðamanninn Kolbrúnu Björt Sigfúsdóttur, þangað til að taka viðtöl, safna efni og segja fréttir.

Meðal þess helsta sem mun gerast á hátíðinni eru stórar kynningar á Tron: Legacy, Scott Pilgrim vs. The World, Harry Potter and the Deathly Hallows, Red, The Expendables og mörgum fleiri myndum, þáttum og myndasögum. Að sjálfsögðu mun þó aðaláherslan vera á kvikmyndirnar af okkar hálfu.

Auk þess munu daglega birtast nokkurs konar dagbókarfærslur hér á vefnum þar sem sagt verður frá því helsta sem gerst hefur þann daginn. Munu þær birtast snemma að morgni á Íslandi vegna tímamismunarins, en þá verða Erlingur og Kolbrún búin að „strita“ í yfir tólf tíma að eltast við allt það mest spennandi sem er að gerast.

Fylgist því vel með hér á vefnum, þar sem við munum færa fréttir af því allra nýjasta í heimi kvikmyndanna af einum stærsta viðburði kvikmyndanna í dag.