Kvikmyndir.is og Myndir mánaðarins hefja samstarf

Myndir mánaðarins, mest lesna tímarit Íslands í dag, og Kvikmyndir.is, einn vinsælasti afþreyingarvefur landsins, hafa nýverið skrifað undir samstarfssamning. Kvikmyndir.is verður miðstöð Mynda mánaðarins á netinu, þar sem hægt verður að nálgast hvert blað og lesa á netinu, efni úr væntanlegum blöðum verður forsýnt og munu Myndir mánaðarins ásamt stjórnendum Kvikmyndir.is segja þar frá öllu því helsta sem er að gerast í kvikmyndaheiminum hverju sinni.

Auk þess gefur þetta samstarf lesendum blaðsins tækifæri á að eiga enn betri samskipti við þá sem að blaðinu standa, svo tryggt sé að Myndir mánaðarins þjóni lesendum sem allra best.

Ritstjóri Mynda mánaðarins, Erlingur Grétar Einarsson, bætist í stjórnendahópinn á Kvikmyndir.is og mun það stækka og breikka umfjöllun síðunnar um kvikmyndir enn frekar.

Auk þessa verða Kvikmyndir.is sýnilegur aðili í Myndum mánaðarins, þar sem í blaðinu verður m.a. greint frá úrslitum ýmissa kosninga og kannana sem haldnar verða á síðunni, greint verður frá helstu fréttum hvers mánaðar af síðunni í blaðinu, auk þess sem vænta má ýmissa skemmtilegra nýjunga á næstu mánuðum, bæði í blaðinu og á vefsíðunni.

Aðkoma Mynda mánaðarins verður hrein viðbót við það fjölbreytta efni sem Kvikmyndir.is hafa boðið lesendum sínum upp á síðastliðin ár. Verður efnistökum eða útliti vefsins á engan hátt umturnað vegna þessa, heldur verður með þessu samstarfi tryggt að Kvikmyndir.is verði sannarlega miðstöð kvikmyndaáhugafólks á Íslandi, þar sem hægt verður að nálgast allt sem tengist vinsælustu afþreyingu Íslendinga á einum stað.

Um Myndir mánaðarins:

Myndir mánaðarins komu fyrst út í febrúar 1994 og hafa komið út mánaðarlega síðan þá. Tímaritið fagnar því 16 ára afmæli sínu um þessar mundir. Í nýjustu könnun Capacent á lestri tímarita á Íslandi, sem var framkvæmd í nóvember síðastliðnum, náðu Myndir mánaðarins þeim sögulega áfanga í fyrsta sinn að vera mest lesna tímarit landsins, með 32,3% lestur á landsvísu, næstum fjórðungi meiri lestur en næstu tímarit á eftir.

Myndir mánaðarins hafa lengi verið langvinsælasta tímarit landsins meðal lesenda undir þrítugu, en hefur að undanförnu náð að breikka lesendahóp sinn mikið. Í Myndum mánaðarins er að finna viðtöl, fréttir og fróðleik um það sem er helst á baugi í kvikmyndum í heiminum í hverjum mánuði, auk ítarlegra upplýsinga um bíó- og DVD-útgáfu hvers mánaðar á Íslandi.

Um Kvikmyndir.is:

Kvikmyndir.is er alhliða vefur um bíómyndir og tengda hluti og sá stærsti sinnar tegundar hér á landi. Á kvikmyndir.is geta notendur m.a. sett inn umfjallanir um bíómyndir, spjallað um allt milli himins og jarðar tengt bíómyndum, lesið kvikmyndafréttir og – greinar og skoðað sýningartíma bíóhúsanna. Kvikmyndir.is býr einnig yfir stórum gagnagrunni með upplýsingum um bíómyndir, íslenskar og erlendar, sýnishornum úr bíómyndum og fleiru og fleiru.

Vefsíðan fór fyrst í loftið árið 1998 og er því að verða 12 ára gömul. Strax í upphafi hlaut vefurinn afbragðs viðtökur og er orðinn að föstum viðkomustað á netinu fyrir fjöldann allan af áhugafólki um kvikmyndir.  Kvikmyndir.is er í dag einn vinsælasti afþreyingarvefur landsins.