Leikstjórinn Greg Mottola er í viðræðum við meistara Larry David varðandi gerð gamanmyndar sem gengur út á spunaleik, líkt og þættirnir Curb Your Enthusiasm og Seinfeld eru þekktir fyrir. Greg Mottola er hvað frægastur fyrir að hafa leikstýrt Superbad og Adventureland.
Ef samningar nást mun Larry verða aðalleikari myndarinnar. Larry og Mottola eru búnir að fá til sín Alec Berg, Jeff Schaffer og David Mandel til að hjálpa þeim með söguþráðinn, en Berg, Schaffer og Mandel vinna að gerð Curb Your Enthusiasm þáttanna og komu einnig við sögu við gerð Seinfeld þáttanna.
Larry David er þekktur fyrir að vera sérstakur í samskiptum. Til dæmis gerir hann aðeins nýja Curb Your Enthusiasm þætti þegar hann nennir og er ekki vanur því að leika í kvikmyndum. Hann lék m.a. í Whatever Works sem Woody Allen leikstýrði.
Þess má til gamans geta að þegar samþykkt var að Seinfeld fengi endurnýjaðan samning eftir fyrstu seríuna þá voru allir í skýjunum nema Larry – hann grét. Ástæðan ku vera sú að honum fannst það ómögulegt að finna nóg efni fyrir heila seríu í viðbót (!). Á meðan hann gerði fyrstu Seinfeld þættina fór hann á kvöldin og leitaði að stöðum sem hann gæti sofið á án þess að vera drepinn og gerði sig þannig tilbúinn til þess að lifa á götunni – svo blankur var hann og svo litla trú hafði hann á því að Seinfeld myndi ganga upp!
Ég veit ekki með ykkur en Larry David og Greg Mottola hljómar eins og virkilega áhugaverð og solid blanda. Ég er mjög spenntur fyrir því að sjá hvort þetta gangi upp, eins og flestir Seinfeld og Curb aðdáendur.