Twilight leikarinn Taylor Lautner og fyrrum ruðningsmeistarinn Dwayne Johnson, einnig þekktur sem The Rock, gætu orðið Davíð og Golíat, ef þeir taka boði Relativity fyrirtækisins um að leika þessa tvo sögufrægu keppinauta úr biblíusögunum.
Leikurunum hefur sem sagt báðum verið boðið að leika í myndinni Goliath, en myndinni er líst þannig í stórum dráttum að á ferðinni sé svokölluð tímabils – spennumynd, sem gerð verði með nútímabrag, en byggð á Biblíusögunni frægu um risann Golíat og drenginn Davíð, sem tókst að fella risann, og varð svo kóngur.
Leikstjóri myndarinnar er Scott Derrickson og Ryan Kavanaugh hjá Relativity, ásamt þeim Wyck Godfrey og Marty Bowen frá Temple Hill, framleiða.
Samkvæmt The Hollywood Reporter þá hafa viðræður enn ekki náð lokastigi, en enn er karpað um fjárhagsliðina. Báðir leikarar vilja víst fá litlar 10 milljónir Bandaríkjadala fyrir verkefnið, eða um 1.140 milljónir króna, sem stendur eitthvað í framleiðendunum, sem eru með einhverjar varaskeifur í huga ef viðræður renna út í sandinn.
Samkvæmt Heat Vision þá hefst sagan þegar hinn grimmi stríðsmaður Goliath, er sendur til að elta uppi og drepa mann sem spádómar segja að verði konungur Ísraels. Ungur fjárhirðir að nafni Davíð lendir þar með í æsilegum eltingaleik og ævintýrum og þarf að berjast fyrir lífi sínu, sinna nánustu og þjóðar sinnar.
Sagan endar svo í sögulegum bardaga þegar fjárhirðirinn og vígamaðurinn grimmi mætast.
JD Payne og Patrick McKay skrifuðu handritið.
Einhvernveginn svona gæti lokabardagi þeirra Lautner og Johnson litið út
Lautner er annars væntanlegur í bíó í myndinni Abduction, spennutryllir sem Lionsgate frumsýnir 23. september. Johnson er hinsvegar enn funheitur eftir velgengni myndarinnar Fast Five.