Leikfangasagan líka vinsælust á Íslandi

Ævintýri leikfanganna í Toy Story 3 vekur greinilega lukku víða um heim, en myndin var langvinsælust um nýliðna helgi á Íslandi. Frá föstudegi til sunnudags sáu yfir 7.500 áhorfendur myndina, en þar sem hún var heimsfrumsýnd á Íslandi á miðvikudaginn er heildaraðsókn á hana komin yfir 10.300 áhorfendur á aðeins fimm dögum, sem er með stærstu opnunarhelgum ársins. Venjulega er aðsókn á Pixar-myndir á Íslandi á milli 25 og 35 þúsund áhorfendur, en það má fastlega gera ráð fyrir því að Toy Story 3 muni í það minnsta vera í efri kanti þess meðaltals, ef ekki hærri, þegar upp er staðið.

Hasarmyndin The A-Team kom sér nokkuð örugglega fyrir í öðru sætinu með tæpa 2.500 áhorfendur og hafa tæplega 5.000 manns séð myndina alls, vegna forsýninga um síðustu helgi og frumsýningar á miðvikudaginn.

Sex and the City 2 og Get Him to the Greek þurftu því að gefa toppsætin eftir, en SATC2 halaði um 1.400 áhorfendur í salina um helgina og Aldous Snow og félagar fengu rúma 800 áhorfendur. Samanlögð aðsókn á ævintýri Carrie og vinkvennanna er komin yfir 25.000 manns og Get Him to the Greek er komin yfir 10.000 áhorfendur eftir helgina.

Um næstu helgi verða þrjár myndir frumsýndar, gamanmyndin Grown Ups, spennutryllirinn A Nightmare on Elm Street og dramað Remember Me, en þar sýnir Robert Pattinson víst á sér nýja og hæfileikaríkari hlið…

Erlingur Grétar Einarsson