Leikmunir úr Lost á uppboði

Nú þegar sjónvarpsþáttunum Lost er lokið, eftir 6 þáttaraðir sem annaðhvort gerði fólk brjálað af pirringi eða breytti venjulegu fólki í algera Lost-sjúklinga, eru margir leikmunir og fleira tengt þáttunum og tökum á þeim ennþá til.

Uppboðsfyrirtækið Profiles in History, sem hefur sérhæft sig í uppboðum á frægum munum úr sögu Hollywood, hefur fengið aðgang að leikmunasafni þáttanna og mun bjóða upp yfir eitt þúsund hluti, búninga og jafnvel parta úr sviðsmyndum frá öllum sex þáttaröðum Lost. Þar á meðal eru Camaro-bifreið Hurleys, Swan Station-tölvan alræmda, Maríustytturnar (í þetta sinn án heróíns), dagbók Faradays, Dharma-sendibíll, leikfangaflugvél Kate, veiðihnífer Lockes, „Drive Shaft“-hringur Charlies og margt fleira sem var notað í tökum á þáttunum.

Hér fyrir neðan eru myndir af Camaronum, Dharma-sendibílnum og nokkrum leikmunum og búningum sem hafa mikla þýðingu fyrir marga af aðdáendum þáttanna.

Ef þið viljið bjóða í hlutina getið þið gert það 21. og 22. ágúst á vefsíðu Profiles in History , en það er viðbúið að margir þessara leikmuni eigi eftir að fara fyrir töluverðar fjárhæðir.

Hvaða leikmun/i mynduð þið helst vilja eignast úr Lost? Eða hvaða sjónvarpsþætti sem er?

-Erlingur Grétar Einarsson