Jæja þá, hugsum fyrst stórt og förum síðan út í rassgat. Listin eins og hún leggur sig er oft til þess ætluð að ögra; spyrja erfiðra spurninga, feisa bitran sannleika og ekki er alltaf ætlast til að maður ‘skilji’ allan pakkann við fyrstu skoðun. Charlie Kaufman er akkúrat svolítið í þessum bransa, sérstaklega þegar hann er einn að verki. Þess vegna kemur það lítið á óvart að margir hætta við glápið á I’m Thinking of Ending Things… og líði eins og einhver leiðarvísir sem átti að fylgja með myndinni hafi týnst.
Margt og heilan helling má segja um þessa kvikmynd; en hún er svo sannarlega ekki færabandaverk, tjaslað saman úr sundurslitnum hugmyndum (ókei, kannski smá) eða pælingum markaðsteymis. Myndin er vel unnin, leikin og greinilega úthugsuð, ef til vill ein af betri ef ekki beittari myndum þessa furðulega kvikmyndaárs. En þá komum við líka aftur að listforminu sjálfu og öðrum mikilvægum fylgihlutum þess, sem er sú alþekkta hugsun, en oft síður viðurkennda athöfn, þegar listamaðurinn er kominn með höfuðið skrúfað langt inn í afturendann. Vill þannig til að þannig er einmitt ástatt um Kaufman, einkum vegna þess að hann stendur hér einn að verki.
Furðulegi hluturinn er að þetta þarf ekki svo nauðsynlega að vera slæmur hlutur, hvað þá þegar gæi eins og Kaufman gerir þetta, sem er stílíseraður sérfræðingur í hinu furðulega.
Kaufman, um Kaufman, frá Kaufman
Það ekkert sjálfsagðara en að taka það tvisvar eða fjórum sinnum fram að þessi kvikmynd er alls ekki allra, og meira að segja Kaufman sjálfur hefur sýnt merki um að kljúfa sína eigin hörðustu aðdáendur í fylkingar. Þó er óumdeilt á allan máta að fólk sem kann að meta súrar, úthugsaðar, vel leiknar og vandaðar kvikmyndir, ætti rakleiðis að setja þessa í forgang á glápslistann.
Og ef ske kynni að myndin hittir í mark og heldur athygli er nauðsynlegt að skipuleggja strax næsta áhorf. Þú losnar kannski ekki við fnykinn af lauknum og færð ef til vill sviða í augun við ferlið, en þessi flysjun er bara of skemmtileg.
Það er með naumindum hægt að kalla þetta hefðbundna sögu en hún er einskonar sjálfsskoðun höfundarins í formi karakterstúdíu, matreidd með rjúkandi beiskju. Annað væri skrýtið frá þessum listamanni. Því er skiljanlegt að hann er ávallt smávegis fastur inni í sjálfum sér, eins og taugaveikluðum, þjáðum listamanni er einum lagið. Það er athyglisvert að fylgjast með fingraförum hans í bæði þeim frumsömdu verkefnum sem hann ritar upp en líka þegar hann býr til aðlaganir á áður útgefnu efni.
Þegar Kaufman skrifaði Adaptation, eitt af hans betri verkum, breyttist heilt ferli sem fjallaði um ágæti blóma í dæmisögu um eitthvað töluvert persónulegra. Stóðst þarna Kaufman ekki mátið að bókstaflega setja sig í aðalhlutverk í verkinu. Tvö aðalhlutverk meira að segja.
I’m Thinking of Ending Things, sem byggð er á samnefndri bók eftir Iain Reid, sýnir þarna höfundinn leika lausum hala með sögu sem hefst fyrst frá sjónarhorni konu sem frá fyrstu senu reynist vera óáreiðanlegur sögumaður. Jesse Buckley flytur orku á skjáinn og kemur með minnisstætt samspil við Jesse Plemons, en grunnurinn er þarna mótaður í kringum par sem ferðast (lengst út í rassgat?) til að hitta foreldra hans. Þá tekur við framvinda sem á blaði sameinar alls konar hluti sem á blaði ættu annaðhvort ekki að fara saman (meðal annars teiknaðan, talandi grís og „elliförðun“ sem er slæm af ásettu ráði) – eða fullkomlega í réttum höndum.
Aldrei er góð vísa…
Þó krafan sé ósanngjörn er örlítið fúlt að kjarni sögunnar skuli ekki snúast um Buckley, sem myndi þá vera einsdæmi hjá Kaufman, þar sem hann væri að skoða öðruvísi bakgrunna persóna og sjónarmið. Þegar allt kemur til alls snýst þetta um tómleika, óhamingju og tilgangsleysi tilverunnar frá sjónarhorni svartsýna karldýrsins, söltuðu með grannskoðun persónunnar á eigin hvötum til að tortíma samböndum við hitt kynið, bakgrunn og þeirri melankólíu sem fylgir hrörnun líkama og hugar í ellinni. Leitin að tilgangi í tilgangsleysinu er ekki auðvelt verk.
Þó Kaufman hafi með einni stórsveiflu náð að útfæra sinn magnum ópus með hinni stórkostlegu Synedoche, New York, hefur hann síðan þá verið að endurvinna gömul þemu, eða brotabrot af þeirri brilljant þemusúpu sem leikstjórafrumraunin var.
Engu að síður sést þarna að kjarnafókus Kaufman er hinn sami og síðast eða þarsíðast og því er höfundurinn farinn að staðna ögn í hugmyndaflugi á eldri árum, en – í sígildum stíl Charlie’s – er vissulega kommentað á einmitt þetta, þó það afsaki í raun lítið.
Kaufman kveður góða vísu en með því að vinna með frásögn sem kenna má við púsluspil minningabrota er útkoman heldur óaðgengileg í áþreifanlegu drama. Svarti húmorinn og súrrealisminn fellur heldur ekki alltaf afdráttarlaust í þessa spilaborg, og er meira til sýnis heldur en að valda djúpstæðum áhrifum. Meira „úmf“ hefði getað flutt myndina úr geggjaðri og flottri grillveislu í að vera abstrakt meistarastykki.
Kael vaknar til lífs
Kaufman kemur með skemmtileg skot á yfirborðskennt smáhjal og áhrif listarinnar á sjálfið. Hann grípur þar sérstaklega til þeirra mótandi áhrifa sem kvikmyndir eða sviðslist almennt á það til að hafa á hvern einstakling, sérstaklega þann dramaglans eða Hollywood-glamúr sem oft fylgir með.
Einn af allra eftirminnilegustu fylgihlutum þessa handrits er ekki síst þegar Kaufman bókstaflega stelur lykilræðu úr háglamúruðu kvikmyndinni A Beautiful Mind, en með fyndnum viðsnúningi.
Umræður um listina eru sömuleiðis í sterkum fókus og einna eftirtektarverðast er þegar ódauðlega rödd gagnrýnandans Pauline Kael er vakin til lífs. Í flestum öðrum kvikmyndum þætti það einkennilega súrt þegar og hvernig Berkley breytist á augabragði í eftirhermu af Kael og þylur upp dóm hennar á frammistöðu Genu Rowlands úr kvikmyndinni A Woman Under the Influence, en allt þetta gegnir sínum þematilgangi.
Hálft gamanið
Oft er hægt að fá þá það á tilfinninguna að sumir leikstjórar eða höfundar telji sig hafa einkarétt á þeim skilaboðum að lífið sé ömurlegt. Sumir hafa meiri húmor fyrir því en aðrir, en þó málefnið sé með þeim algengari er það án efa tilkomumikið hvernig Kaufman nær oftast að negla niður eftirtektarverðan vinkil á þetta. Hálft gamanið reynist vera í púsluspilinu og þeim hráa sannleika sem Kaufman kemur oft afbrigðilega vel til skila.
Þegar bræðingurinn er annars vegar farinn að taka á sig mynd stendur eftir skuggi af betri verkum Kaufmans, sem þó reynist á sama tíma vera fáránlega vel heppnuð steik. Hún er fjarri einhverri fullkomnun, en fyrirsjáanleg og leiðinleg er hún alls ekki.
Í styttra máli: Súrt. Satt. Stundum sárt, stundum spælandi en skemmtilegt í gegn.