„Dagskráin í ár hefur aldrei verið jafn fjölbreytt. Það var kannski lögð áhersla á í ljósi ástandsins aðeins léttari myndir í og með heldur en áður. Það eru gamanmyndir, heimildarmyndir og myndir sem snerta á því sem er efst á baugi í samfélaginu.“
Þetta segir María Ólafsdóttir, fjölmiðlafulltrúi RIFF, í samtali við Huldu Geirsdóttur í Morgunútvarpinu og ræðir þær aðlaganir sem fylgdu hátíðinni með tilliti til breyttra reglna þetta árið. Þurftu aðstandendur meðal annars að flytja stóran hluta hátíðarinnar yfir á netið, selja í færri sæti og sleppa öllum hátíðlegum athöfnum.
„Það er vissulega nokkur áskorun að halda hátíð eins og RIFF á þessum tímum,“ segir María. „Það sem við gerum er að sýna myndir í bíó, en takmörkum okkur við eina sýningu á mynd og færri sæti, og með þann möguleika að horfa á heima. Þú getur farið á vefinn okkur og leigt mynd og horft á heima í stofu.“
Fullyrðir fjölmiðlafulltrúinn að RIFF leggi áherslu á nýjar gæðamyndir og margar þeirra sem nú eru í sýningu hafa áður verið á Cannes, San Sebastian og öðrum virtustu hátíðum í bransanum. Þá eru frumsýndar íslenskar myndir á hátíðinni, þar á meðal Þriðji póllinn sem er opnunarmyndin, Sirkússtjórinn, Húsmæðraskólinn og á morgun verður sýnd A Song Called Hate sem fjallar um ferð Hatara í Eurovision á síðasta ári.