Fyrsta opinbera myndin af Jesse Eisenberg í hlutverki Lex Luthor úr kvikmyndinni Batman v Superman: Dawn of Justice var birt í dag. Eintertainment Weekly birti myndina sem má sjá hér til vinstri.
Zack Snyder leikstjóri myndarinnar sagði í tilkynningu á síðasta ári að Luthor hafi löngum verið talinn illræmdasti óvinur Superman.
,,Það sem er frábært við Lex er að hann er ekki bara svívirðilegur óþokki heldur er hann margbrotin persóna og fágaður karakter, en gáfur hans, auður og staða hans gera hann einn af fáum dauðlegum mönnum til að geta ögrað hinum ógnarsterka Superman,“ sagði Snyder um persónuna.
Lex Luthor er lýst sem ótrulega gáfuðum einstakling, sem á sér það eina takmark að eyða Superman. Hann hefur notað Kryptonite, ferðast um tímann, náð í verur í fjórðu vídd og fengið hjálp frá öðrum óvinum Superman. Þrátt fyrir allar sínar tilraunir þá hefur Superman alltaf borið sigur úr býtum en alltaf tekst Lex að sleppa annaðhvort úr höndum Supermans eða úr fangelsi.