Kvikmyndagerðarkonan Clara Lemaire Anspach mun á þessu ári frumsýna heimildarmyndina Sólveig mín. Myndin segir frá lífi og ævistarfi Sólveigu Anspach, leikstjóra og handritshöfundar, en Clara er dóttir hennar og vinnur að verkinu með Körnu Sigurðardóttur. Það er ZikZak sem framleiðir.
Þau Garún Daníelsdóttir, Didda Jónsdóttir, Óttarr Proppé og Ingvar E. Sigurðsson eru á meðal þeirra sem birtast í myndinni, en verkið er klippt af Elísabetu Ronaldsdóttur (John Wick, Atomic Blonde, Deadpool 2) og semur Barði Jóhannsson tónlistina.
Íslensk-franska kvikmyndagerðarkonan Sólveig Anspach lést árið 2015, 54 ára að aldri, af völdum brjóstakrabbameins. Hún leikstýrði 14 myndum á ferlinum, bæði heimildarmyndum og leiknum myndum. Síðasta myndin hennar var gamanmyndin Sundáhrifin (The Together Project) og vakti hún mikla lukku á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík 2016 og var hún einnig valin til þátttöku í flokknum Director‘s Fortnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes.
Sólveig fæddist í Vestmannaeyjum þann 8. desember 1960. Hún ólst upp í útlöndum og stundaði háskólanám í heimspeki og klínískri sálfræði í París. Sólveig útskrifaðist svo frá kvikmyndaskólanum FEMIS í París árið 1990.
Sólveig var heiðruð í Cannes árið 2001 fyrir myndina Made in the USA, sem fjallaði um aftöku í Texas.
Mynd hennar Queen of Montreuil vann áhorfendaverðlaunin á RIFF. Auk þess var hún valin besti leikstjórinn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Ghent árið 1999 fyrir myndina Haut les Coeurs!