Bandaríski leikarinn Ray Liotta hefur bæst í leikarahóp myndarinnar Kill The Messenger, með Jeremy Renner í aðalhlutverkinu. Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um rannsóknarblaðamanninn Gary Webb sem vann á dagblaðinu San Jose Mercury News sem komst yfir sönnunargögn um þátttöku bandarísku leyniþjónustunnar CIA í útbreiðslu kókaíns í Los Angeles. Gögn hans bendluðu CIA við ráðabrugg sem gekk út á að fjármagna starfsemi Contra skæruliða í Nicaragua í gegnum eiturlyfjahring.
Hann birti greinar sínar, sem kölluðust Dark Alliance, í blaðinu í þremur hlutum árið 1996. Í kjölfarið hófst mikil ófræginarherferð á hendur Webb sem að lokum framdi sjálfsmorð árið 2004.
Liotta mun leika CIA leyniþjónustumann á eftirlaunum sem er lykilheimildarmaður Webbs þegar hann er að grafa upp upplýsingarnar um þessa starfsemi leyniþjónustunnar. Aðrir leikarar í myndinni eru Rosemarie DeWitt, Paz Vega, Michael Kenneth Williams Mary Elizabeth Winstead, Michael Sheen, Andy Garcia, Tim Blake Nelson, Robert Patrick, Barry Pepper og Oliver Platt.
Leikstjóri er Michael Cuesta og handritið skrifar Peter Landesman. Tökur eru þegar hafnar í Atlanta í Bandaríkjunum, en frumsýning er áætluð á næsta ári.
Liotta er næst hægt að berja augum í Sin City: A Dame To Kill For auk þess sem hann leikur í Prúðuleikaramyndinni Muppets Most Wanted, sem kemur í bíó 28. mars á næsta ári.