Það er ekki sjálfgefið að bíómynd slái í gegn, jafnvel þó að stórstjörnur séu í aðalhlutverkum og efni myndarinnar taki á vel þekktum málum.
Þetta er því miður málið með WikiLeaks myndina The Fifth Estate þar sem Benedict Cumberbatch fer með hlutverk uppljóstrarans Julian Assange.
Samkvæmt Forbes viðskiptaritinu þá hefur myndin einungis þénað 6 milljónir Bandaríkjadala í sýningum um allan heim, en myndin er einmitt í sýningum hér á landi um þessar mundir.
Það kostaði 28 milljónir að gera myndina, og hún á því enn þónokkuð í land með að hala inn fyrir kostnaði.
Svo virðist sem efnið hafi ekki höfðað til bíógesta, eins og Empire kvikmyndaritið bendir á, auk þess sem gagnrýnendur voru ekki á einu máli um gæði myndarinnar.
„Það voru allir spenntir af því að þetta er búið að vera mikið í fréttum, en kannski er málið að allir séu orðnir þreyttir á þessu,“ sagði leikstjórinn Bill Condon í samtali við Entertainment Weekly vefsíðuna.
Nú lítur út fyrir að myndin sé eitt mesta flopp ársins hvað varðar fjárhagshliðina, ef ekki það mesta.
Aðrar myndir sem hafa brugðist vonum eru mynd Sylvester Stallone, Bullet To The Head, Paranoia, Parker og Broken City með þeim Mark Wahlberg og Russell Crowe í aðalhlutverkum.