Útlit er fyrir að ævintýramyndin Luca, sú nýjasta frá stórrisunum Pixar, dótturfélagi Disney, fáist ekki með íslenskri talsetningu auk þess að verða ekki sýnd í kvikmyndahúsum hérlendis. Heimildir kvikmyndir.is herma að ákvörðunin komi mörgum að óvörum enda hafi fyrirvarinn verið skammur. Búið var að ráða raddleikara í öll hlutverk kvikmyndarinnar áður en skipulaginu var breytt. Þetta verður fyrsta teiknimynd Pixar sem ekki er gefin út með íslensku tali.
Luca var frumsýnd í dag á streymisveitunni Disney+ og herma heimildir að það standi ekki undir kostnaði að talsetja myndina á íslensku. Sagt er að forsvarsmenn Disney hafi tekið ákvörðunina.
Í samtali við Kvikmyndir.is segir Ævar Þór Benediktsson, þjóðþekktur raddleikari með meiru, málið vera mjög bagalegt en það sé vonandi undantekning frekar en regla. „Það var búið að ráða leikara í öll hlutverk og við vorum búin að talsetja stiklu. Við vorum öll tilbúin,“ segir Ævar.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur lengi unnið að því að fá Disney til að tryggja að bíómyndir frá þeim séu talsettar á íslensku. Upphaflega sendi Lilja forstjóra Disney, Bob Chapek, bréf í byrjun árs þar sem hún hvatti fyrirtækið til að bjóða í meira mæli upp á íslenska talsetningu og texta. Kvaðst hún þá hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar hún komst að því hve lítið af slíku efni var í boði hjá streymisveitu fyrirtækisins.
Viku síðar fékk menntamálaráðherra svar frá Hans van Rijn, yfirmanni Disney á Norðurlöndunum og í svari hans kom fram að tæknileg vinna við að bjóða upp á íslenskt tal og texta tæki nokkra mánuði. Síðar kom í ljós að yfir 600 kvikmyndir verði aðgengilegar með íslenskum texta eða tali á Disney+ fyrir mánaðarlok, þar af yfir 100 teiknimyndir talsettar á íslensku. Lilja sagði þetta marka tímamót í íslenskri talsetningu og textun.