Hin sígilda Mad Max frá árinu 1979 átti sinn þátt í að koma ástralskri kvikmyndagerð á kortið, en í kjölfar fyrstu myndarinnar fylgdu tvær framhaldsmyndir; The Road Warrior og Mad Max: Beyond Thunderdome.
Nú standa yfir tökur á fjórðu myndinni, Mad Max: Fury Road, en við birtum fyrstu ljósmyndina úr myndinni hér á síðunni í desember sl.
Það er The Dark Knight Rises og Lawless stjarnan Tom Hardy sem leikur Mad Max, sem Mel Gibson gerði ódauðlegan í upprunalegu myndunum. Hardy lítur vel út í hlutverkinu af myndinni góðu að dæma.
Það er lítið af öðru myndefni búið að birtast frá því að myndin birtist í desember, en nú er komið út myndband sem tekið var á tökustað:
Í myndbandinu, sem er tekið í eyðimörkum í Namibíu í Afríku og í Suður – Afríku, sér maður ýmis nýstárleg farartæki aka um í sandinum.
Myndinni er leikstýrt af George Miller og fjallar um stríðið sem fer af stað þegar Max og hershöfðinginn Furiosa hjálpa hópi landnema að flýja yfir eyðimörkina.
Í myndinni leika auk Hardy þau Nicholas Hoult, Hugh Keays-Byrne, Nathan Jones, Zoe Kravitz, Riley Keough, og Rosie Huntington-Whiteley meðal annarra.
Stefnt er að frumsýningu sumarið 2014.