Síðar í dag, föstudaginn 28. september, kl. 15.30 verður danski leikarinn Mads Mikkelsen verðlaunaður með RIFF verðlaunum fyrir framúrskarandi framlag sitt til leiklistarinnar. Athöfnin fer fram í Höfða í Reykjavík og mun Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, afhenda honum verðlaunin.
Mads sagðist í samtali við Morgunblaðið um síðustu helgi hlakka óvenju mikið til að koma til Íslands. „Sjálfur hef ég komið mörgum sinnum, fyrst 1996 eða 1997, og á orðið nokkra kunningja þarna upp frá en konan mín er á hinn bóginn að koma í fyrsta skipti. Gaman verður að sýna henni landið,“ segir Mads við Morgunblaðið en eiginkona hans er danski danshöfundurinn Hanne Jacobsen. Þau byrjuðu að rugla saman reytum árið 1987 og gengu í heilagt hjónaband árið 2000.
Mads segist í samtalinu þekkja vel til RIFF, þó hann hafi ekki mikið heyrt um hana rætt erlendis. „Fólk talar bara um hátíðir þegar því er boðið á þær. Meira er rætt um stóru hátíðirnar, eins og Cannes, Feneyjar og Toronto, enda senda kvikmyndagerðarmenn sínar myndir þangað. Slíkar hátíðir snúast hins vegar meira um viðskipti en kvikmyndagerð og einmitt þess vegna eru hátíðir eins og RIFF svo mikilvægar; þær hverfast um listina sjálfa en ekki markaðinn. Það kann ég að meta.“