Mafíuforingi er blóðsuga – Fyrsta stikla úr Yakuza Apocalypse!

Þeir sem höfðu gaman af slagsmálatryllinum The Raid 1 og 2, ættu að sperra eyrun, því fyrsta stiklan úr Yakuza Apocalypse er komin út, en myndin er framleidd af þeim sömu og gerðu The Raid myndirnar, auk þess sem sjá má nokkur kunnugleg andlit úr The Raid í stiklunni.

yakusa

Leikstjóri er japanski leikstjórinn Takashi Miike, en í myndinni er daðrað við ákveðinn súrrealisma í bland við blóðug slagsmál, enda er aðalpersónan vampíra. Myndin er þannig í bland og allt í senn, gamanmynd, spennumynd og hrollvekja.

Sjáðu blóðuga stikluna hér fyrir neðan og lestu söguþráðinn þar fyrir neðan:

Myndin fjallar um Yakuza ( japanska mafían ) foringjann Kamiura, sem er algjör goðsögn. Hann er sagður vera ódrepandi, en sannleikurinn er sá að hann er vampíra. En hann er ekki þessi dæmigerða vampíra sem allir þekkja, heldur er hann vampíra sem er að auki mafíuforingi!

yakusa 3

Í mafíugengi Kamiura er hinn hundtryggi Kageyama. En aðrir í hópnum líta niður á Kageyama, þar sem húð hans er of viðkvæm til að hægt sé að húðflúra hana.

Dag einn koma menn frá útlöndum og setja Kamiura afarkosti: annaðhvort snúi hann aftur til samtakanna sem hann yfirgaf fyrir mörgum árum síðan, eða deyi að öðrum kosti. Kamiura neitar og eftir langan bardaga er hann limlestur hrottalega.

En áður hann deyr nær hann að yfirfæra völd sín og krafta yfir á Kageyama. Kagayama ákveður að hefna foringja síns, og í hönd fer blóðugt uppgjör.

Miike er einn vinsælasti kvikmyndagerðarmaður í Japan og hefur leikstýrt næstum eitt hundrað myndum, eins og t.d. Audition (1999), Ichi the Killer (2001) og 13 Assassins (2010). Lengi vel gerði hann 5 – 8 kvikmyndir á ári en í dag gerir hann mun færri myndir, eða um 2 myndir á ári.

yakusa plakat