Þær gerast vart meira hrollvekjandi stiklurnar en sú sem komin er út fyrir þýsku hrollvekjuna Der Nachtmahr, eða Martröðin, í lauslegri þýðingu.
Myndin er eftir Akiz Ikon og segir frá 16 ára stúlku sem fer að sjá sýnir þar sem forljót vera birtist henni.
Eins og hægt er að sjá í stiklunni, þá sendir þessi blanda af óhugnanlegum myndum, tónlist og bakgrunnshljóðum kaldan hroll niður bakið á manni, og það er ekki laust við að mann þyrsti í að sjá meira…
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:
Tina er 16 ára gömul og virðist hafa allt sem dæmigerður unglingur á hennar aldri getur óskað sér. Eftir brjálað partý eitt kvöldið, þá byrjar hún að fá martraðir þar sem furðuleg vera eltir hana. Hún hættir brátt að skynja bilið á milli raunveruleika og drauma, og Tina fer að vingast við skrímslið og samband þeirra mun breyta lífi og tilveru allra í kringum hana.
Með helstu hlutverk fara Carolyn Genzkow, Sina Tkotsch, Michael Epp og bandaríski tónlistarmaðurinn Kim Gordon ( sem áður var í Sonic Youth).
Myndin var upphaflega frumsýnd árið 2014 á Slamdance kvikmyndahátíðinni.