Í síðasta mánuði voru líkur á því að leikstjórinn Danny Boyle væri í þann veginn að semja við Michael Fassbender, Magneto í X-Men First Class með meiru, um að leika í spennumyndinni Trance, eða Dáleiðsla. En nú, skömmu síðar, virðist hafa orðið breyting þar á og meðleikari Fassbenders úr X-Men First Class, James McAvoy, gangi til liðs við Boyle í stað Fassbenders.
Myndin á að fjalla um aðstoðarmann í listhúsi sem skipuleggur rán ásamt illvígum glæpaforingja, sem McAvoy myndi leika. Aðstoðarmaðurinn fær höfuðhögg og missir minnið, og glæpagengið þarf nú að fá aðstoð dáleiðslumeistara til að endurheimta upplýsingarnar um hvar myndin sem þau stálu, er niðurkomin.
Boyle ætlar að hefja tökur í september en frumsýning er áætluð í mars 2013.
McAvoy sást síðast á hvíta tjaldinu í hlutverki Prófessors Charles Xavier, í X-Men First Class, og er væntanlegur næst í teiknimyndinni Arthur Christmas auk þess sem tökur standa nú sem hæst á glæpatryllinum Welcome to the Punch ásamt Mark Strong, Jason Maza og Andrea Riseborough.