Um tíu ár eru liðin síðan bandarísku sjónvarpsþættirnir vinsælu Sex and the City hættu göngu sinni, og þrjú ár síðan önnur Sex and the City kvikmyndin var frumsýnd, við misjafnar viðtökur gagnrýnenda. Það þýðir þó ekki að Sarah Jessica Parker, 48 ára, aðalstjarna Sex and the City, sé hætt að hugsa um Carrie Bradshaw og hinar persónurnar úr þáttunum og myndunum.
Í bandaríska US tímaritinu er vitnað í nýlegt viðtal fréttaveitu AOL við leikkonuna þar sem fram kemur að Parker telji að enn sé nóg eftir til að búa til þriðju Sex and the City kvikmyndina. „Ég hef alltaf sagt … það er ein saga sem á eftir að segja,“ sagði Parker. „Ef staður og stund eru rétt, þá ættum við kannski að segja hana.“
Spurð að því beint hvort hún vildi gera beint framhald af Sex and the City 2 sagði Parker: „Það yrði frábært.“
Í Sex and the City 2 voru Carrie og vinkonur hennar þrjár sem leiknar eru af Cynthia Nixon, Kristin Davis og Kim Cattrall í lúxus sumarfríi í Abu Dhabi. „Það er amk. gaman að velta því fyrir sér.“
Parker er annars upptekin þessa dagana af öðru verkefni, en það er á netinu og heitir City Ballet, sem hún lýsir sem heimildaseríu um unga dansara.
„Dætur mínar elska ballet,“ segir hún um tvíburadætur sínar Marion og Tabitha, þriggja ára ( Parker og eiginmaður hennar Matthew Broderick eiga einnig soninn James Wilkie, 10 ára ). „Þær dansa allan daginn og byrja í ballettskóla á næsta ári. Þegar við förum með þær á ballettsýningar þá leika þær ballerínur eftir á.“
Hvað finnst þér, er kominn tími á þriðju Sex and the City bíómyndina?