(Með/á móti er fastur liður á síðunni þar sem tveir stjórnendur með ólíkar skoðanir á tiltekinni bíómynd segja nákvæmlega það sem þeim finnst (helst í minna en 300 orðum) og er undir notendum komið að velja þá hlið sem er raunsærri, skemmtilegri eða meira sannfærandi. En svo er alltaf séns á því að skoðun þín sé mitt á milli)
Axel Birgir Gústavsson vs. Þráinn H. Halldórsson
Þegar fyrsta Iron Man myndin kom út, þá líkaði hér um bil öllum við hana, en það var ekki hægt að segja það sama um framhaldsmyndina sem kom út tveimur árum síðar. Það er frekar erfitt að segja að mynd sé vanmetin þegar henni hefur gengið svona vel í aðsókn en sömuleiðis er erfitt að segja að hún sé ofmetin þegar margir myndasögunördar og gagnrýnendur rifu hana alveg í sig.
Hér eru tveir kvikmyndaáhugamenn á sitthvorri skoðuninni:
Axel segir:
Iron Man 2 er eitt dýrasta stefnuleysi sem ég hef séð. Handritið er klunnalega uppbyggt og jafnvel óklárað á köflum, sem sést (augljóslega) í þreytandi spunanum milli leikaranna. Ég veit að það er ósanngjarnt að ræða hvað hún HEFÐI getað verið, frekar en hvað hún er; en af hverju þarf myndin að fjalla um vandamál með míní-kjarnaofninn í Tony, þegar myndin gæti fylgt mun áhugaverðari persónugalla hans úr myndasögunum; alkahólismi hans. Partý senan hefði t.d. orðið veigameiri í kjölfarið. Myndin hefði þá getað losað sig við að Tony uppgvötaði nýtt frumefni (ekkert smá lélegt Deus ex Machina þar á ferð)- og fókusinn á innri djöfla Tony og seinheppni þeirra feðganna verið mun átakanlegri saga. Hasarinn virkar óspennandi fyrir mig því mér var einfaldlega alveg sama um hvað yrði um persónurnar því myndinni tókst svo vel að gera lítið úr þeim, viljandi og óviljandi. Illmenninu er sóað og það er frekar slappt hversu mikið myndin hún þjáist af því að tengjast The Avengers. Hún eyðir mestum tímanum af öllum Marvel-myndunum í Avengers blætið og virkar sem versta sjálfstæða ræman í seríunni fyrir vikið. Sóun á góðum grunni, hæfileika, og glatað tækifæri til að rýna frekar í Tony Stark. Marvel tókst þó feikilega vel að bæta upp fyrir þessa glötun með myndunum sem fylgdu í kjölfarið.
Þráinn segir:
Ég hef ákveðið að taka að mér það verðuga verkefni að verja Iron Man 2. Það verður seint sagt að ég hafi dýrkað þessa mynd, en hafði fjandi gaman af henni. Ég á þó enn eftir að hitta kvikmyndaáhugamann sem hafði jafn gaman af henni og ég. Margir vilja meina að það sé ekkert varið í myndina og enn fleiri ‘ranka’ hana sem verstu pre-Avengers myndina (eruði þroskavangefin, eru allir búnir að gleyma The Incredible Hulk ?). Ég segi að þetta snúist um einn hlut: væntingar.
Flestir viðurkenna að Iron Man er að minnsta kosti á topp þremur yfir bestu Marvel myndirnar. Iron Man var alveg fáránlega skemmtileg og hitti beint í mark. Downey Jr. endurlífgaði leikaraferilinn og Jon Favreau gerði allt rétt. Við megum ekki gleyma því að þegar hún kom út voru myndir eins og (emo)Spider-Man 3, Fantastic Four: Rise of The Silver Surfer (og fokking Ghost Rider) nýjustu teiknimyndasögumyndirnar og voru „normið“ á þessum tíma. Iron Man hafði ekkert til að keppa að (The Dark Knight kom í bíó 2 mánuðum á eftir IM). Þegar allir sáu þessa mynd skitu þeir á sig af spenningi í bíósætinu. Iron Man 2 er ekki fullkomin, en hún gerir allt það sem góð framhaldsmynd á að gera: skemmta áhorfandanum. Í staðinn fyrir að fókusera á að búa til karakterdýpt í Tony Stark og búa til einhvers konar forleik fyrir IM3 og Avengers myndina þá skellir hún Mickey Rourke upp á hvíta tjaldið með rússneskum hreim og rafmagnssvipur rústandi F1 bílum. Það eitt fær mann til þess að éta poppið sitt á meiri hraða en áður og verða andskoti sáttur með lokaútkomuna. Djöfulsins snilld. Rassgatið á Scarlett Johansson er líka til fyrirmyndar. Ég bið ekki um meira.
HVORU MEGIN VIÐ LÍNUNA ERT ÞÚ?