Stórhljómsveitin Metallica mun eiga hlut í tónlist kvikmyndarinnar Jungle Cruise frá Disney samsteypunni. Það er tónskáldið James Newton Howard sem semur megnið af músíkinni fyrir ævintýramyndina sem búast má við næsta sumar. Hermt er að tónskáldið og hljómsveitin séu að sjóða saman einhvern athyglisverðan bræðing.
Lars Ulrich, trommari Metallica, sagði í viðtali við fréttamiðilinn Collider að Sean Bailey, forstjóri kvikmyndadeildar Disney, hafi slegið á þráðinn og komið með boð sem erfitt var að hafna.
Ulrich kveðst vera mikill aðdáandi Disney-bíómynda. Má geta að Metallica í myndinni má finna nýja útgáfu af einu þekktasta lagi þeirra, Nothing Else Matters, sem unnin verður sérstaklega fyrir Disney-ævintýrið.
Þá lætur Ulrich góð orð falla í garð Howards, sem hefur að baki átta Óskarstilnefningar (meðal annars fyrir The Fugitive, Michael Clayton og Defiance), og segir það mikinn heiður að vinna með honum.
„Við erum mjög spenntir að kynna heiminum fyrir þessu samstarfi,“ segir Ulrich og lýsir þessu sem athyglisverða blöndu af stílum. „Ég vil ekki segja frá of miklu en þetta verður einkennilegur bræðingur.“
Hljómsveitin bættist við teymi kvikmyndarinnar þegar langt var liðið á eftirvinnsluferlið. Til stóð upphaflega að frumsýna Jungle Cruise um sumarið 2020 áður en hún var færð til júlímánaðar 2021. Hefur þetta gefið tónskáldinu og öðrum aðstandendum myndarinnar gott færi til að slípa allt betur til og gera ýmsar tilraunir, líkt og aðkoma Metallica gefur til kynna.
Jungle Cruise skartar þeim Dwayne Johnson, Emily Blunt, Édgar Ramírez, Jesse Plemons og Paul Giamatti. Johnson heldur um stjórntaumana á bátskrifli sem siglir niður fljót í skóginum.
Með honum á skipinu er landkönnuður (Blunt) í ætt við Indiana Jones, sem leitar að fornum grip djúpt í iðrum skógarins, sem á að hafa lækningamátt.