Metaregn hjá Jurassic World

Risaeðlutryllirinn Jurassic World tók bíóheiminn í Bandaríkjunum með trompi í gær föstudag, en þessi frumsýningardagur myndarinnar var sá þriðji tekjuhæsti í sögunni!

jurassic

Talið er að tekjur af sýningum gærdagsins hafi numið 82,8 milljónum Bandaríkjadala, en þar af eru 18,5 milljónir dala frá sýningum á fimmtudag.

Aðeins Harry Potter and the Deathly Hallows Part 2 og Avengers: Age of Ultron voru betur sóttar á frumsýningardegi. Talið er að myndin verði búin að raka saman nálægt 200 milljónum dollara áður en helgin er úti.

Að auki þá er þetta besti frumsýningardagur nokkurrar myndar Universal kvikmyndaversins og talið er að myndin slái Fast and Furious 7 út sem aðsóknarmesta mynd Universal á frumsýningarhelgi frá upphafi.

Ennfremur er frumsýningarhelgin sú tekjuhæsta í júní í Bandaríkjunum í sögunni, og slær þar með tveggja ára gamalt met Man of Steel, en tekjur hennar í júní í 2013 voru 116 milljónir dala á frumsýningarhelginni.

Jurassic World verður líklega jafnframt tekjuhærri en allar þrjár Jurassic Park myndirnar samanlagt á frumsýningarhelgi.

„Fyrir hönd allra sem tóku þátt í að gera Jurassic World, og það eru þúsundir skal ég segja ykkur, vil ég segja takk fyrir,“ sagði aðalleikarinn Chris Pratt á Facebook í gær, föstudag.

„Það er frábær tilfinning að heyra hvað myndin fær jákvæðar viðtökur. Við erum ótrúlega sæl með niðurstöðuna og þakklát fyrir stuðninginn til þessa,“ sagði Pratt og ítrekaði þakklæti sitt.