Ef þú átt leið um Orlando í september og fram í nóvember nk., og langar að láta hræða úr þér líftóruna, þá ættirðu að heimsækja Universal Studios skemmtigarðinn þar í borg og kíkja á nýja Halloween „draugahúsið“, en það er byggt á hinni sígildu hrollvekju John Carpenter, Halloween, frá árinu 1978.
Halloween gerist árið 1963 á hrekkjavökuhátíðinni í Bandaríkjunum. Lögreglan er kölluð til Lampkin götu nr. 43 og finnur þar hina 15 ára gömlu Judith Myers stungna til bana af 6 ára gömlum bróður hennar, Michael. Eftir að hafa verið á geðsjúkrahúsi í 15 ár þá brýst Michael út af sjúkrahúsinu kvöldið fyrir hrekkjavökuhátíðina. Enginn veit, né heldur vill vita, hvað gerðist þann 31. október árið 1978, nema geðlæknir Myers, Dr. Loomis. Hann veit að Michael er að koma til Haddonfield, en um það leyti sem bæjarbúar átta sig á því, er það þá þegar orðið of seint fyrir marga.
Halloween er ein vinsælasta hrollvekjusería allra tíma og hefur þénað 336 milljónir Bandaríkjadala í sýningum um allan heim, en frá því fyrsta myndin var frumsýnd hafa níu framhaldsmyndir verið gerðar.
Hér má nálgast miða á sýningarnar, og hér fyrir neðan geturðu séð hvað bíður þín …