Ef þið voruð að leita ykkur að einhverju skemmtilegu að gera næstu þrjá daga, viljið gera eitthvað menningarlegt og það alveg ókeypis eru Miðamerískir Kvikmyndadagar í Háskóla Íslands eitthvað fyrir ykkur! Kvikmyndadagarnir, sem hefjast kl. 17 í dag, eru skipulagðir af nemendum við HÍ sem setið hafa námskeið um kvikmyndir spænskumælandi landa í vetur og eru þeir opnir öllum.
Myndirnar eru sýndar í stofu 101 í Lögbergi og eru allar með spænsku tali og enskum texta, en hér að neðan má sjá dagskrá kvikmyndadaganna og stutta lýsingu úr myndunum.
12. apríl – Fimmtudagur
Kl. 17.00 Meðganga (Gestación, Costa Rica, 2010)
Menntaskólanemarnir Jessie og Teo standa frammi fyrir ótímabærri
þungun Jessíar. Þau takast á við íhaldssöm viðhorf og kaþólskar hefðir
heimalandsins. Neikvæð viðhorf hinna fullorðnu gera þeim erfitt fyrir og
flækir þau í tilfinningalegt stormviðri fyrstu ástarinnar sem reynir á
samband þeirra. Samfélagsádeila varpar ljósi á þá togsteitu sem á sér stað
innan samfélaga þegar ný viðhorf ógna ríkjandi hefðum.
Kl. 19.00 Karíbahafsströndin (El Caribe, Costa Rica, 2006)
Hjónin Vicente og Abigail reka bananaplantekru í Limón héraði við
Karíbahafsströnd Kosta Ríka. En þegar bananaverð fellur á alþjóðamörkuðum er
starfsvettvangi hjónanna ógnað. Á sama tíma sækjast alþjóðleg olíufyrirtæki
eftir borunarleyfum á svæðinu í óþökk íbúanna. Alþjóðavæðing, náttúruvernd
og lostafullar langanir mannsins fléttast saman í ægifögru umhverfi.
13. apríl – Föstudagur
Kl 17.00 Júma (La Yuma, Nicaragua, 2009)
Unglingsstelpan Júma býr ásamt móður sinni, systkinum og stjúpföður við
bágar aðstæður í fátækrahverfi í höfuðborginni Managva. Júma er bæði
sjálfstæð og ákveðin og á sér þann draum heitastan að verða atvinnuboxari en
slíkt er ekki sæmandi fyrir konur í hennar samfélagi. Þegar hana grunar að
stjúpfaðirinn sé að misnota systkin sín, þá tekur hún þau að sér. Hún sér
þeim farborða en berst samtímis við að láta drauma sína rætast.
Kl 19.00 Stígurinn (El Camino, Costa Rica/Nicaragua, 2010)
Myndin segir frá systkinunum Saslaya og Dario. Þau lifa í örbirgð á
ruslahaugum Managúaborgar og búa við misnotkun afa síns. Saslaya tekur af
skarið og segir sig frá ofbeldinu sem þau sæta heima fyrir og systkinin
hlaupast á brott. Þau halda til Kosta Ríka í leit að móður sinni. Á leiðinni
upplifa þau veruleika munaðarlausra götubarna í Miðameríku.
14. apríl – Laugardagur
Kl 17.00 Dóttir Hlébarðans (La hija del puma, Mexíkó/Svíþjóð, 1994)
Myndin segir sögu indjánastúlku frá Gvatemala og flótta hennar yfir
landamærin til Mexíkó þegar ógnaröld borgaralegra átaka stóð sem hæst í
heimalandi hennar. Siðir og hefðir indjánasamfélagsins í Gvatemala eru
ráðandi í söguþræðinum um leið og ljósi er varpað bæði á misréttið sem ríkir
í landinu svo og átakasögu landsins.
Kl. 19.00 Nafnlaus (Sin Nombre, Mexíkó, 2009)
Í myndinni um hina nafnlausu eru sagðar tvær samhliða sögur úr miðamerískum
veruleika. Önnur sagan fjallar um mexíkóskt glæpagengi og hin fjallar um
fólk frá Hondúras sem er að reyna að komast til Bandaríkjanna í leit að
betra lífi með því að ferðast sem laumufarþegar í vöruflutningalest. Þessir
tveir heimar mætast þegar glæpagengið rænir lestina og saga þeirra
samtvinnast á ferðalaginu til Bandaríkjanna, en leiðin er löng, ógnirnar
margar og það eru ekki allir sem komast á leiðarenda.