Hin dramatíska bíómynd, Móðir, eða Mother, sem fjallar um baráttu móður fyrir því að hreinsa fatlaðan son sinn af morðákæru, sló í gegn á Asian Film Awards í dag mánudag. Myndin hlaut verðlaun í flokknum besta mynd og hin gamalkunna og virta leikkonan Kim Hve-ja hlaut verðlaun fyrir leik sinn í hlutverki móðurinnar.
Móðir vann einnig verðlaun í flokki handrita, sem leikstjórinn Bong Joon-ho skrifaði ásamt Park Eun-kyo.
Verðlaun fyrir leikstjórn hlaut annar leikstjóri, Lu Chuan, fyrir myndina City of Life and Death, grimmúðleg svart-hvít mynd um grimmdarverk Japana þegar þeir réðust inn í Kína á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.
Wang Xueqi var valinn besti leikarinn fyrir hlutverk sitt sem athafnamaður í Kína á dögum keisaraveldisins sem var hliðhollur uppreisnaröflunum, í myndinni Bodyguards and Assasins. Kung Fu spennumynd Teddy Chan fékk verðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki, en það var leikarinn og söngvarinn Nicholas Tse, sem var þar verðlaunaður fyrir frammistöðuna.
Besta leikkonan var valin Wai Ying-hung, fyrir túlkun sína á einhleypri móður sem horfir fram á son sinn verða ákærður fyrir nauðgun, í myndinni At the End of Daybreak.
Framleiðandi Móður, Moon Yang-kwon sagði að Kim Hye-ja, sem leikur móðurina, hefði náð að túlka móðurina með eftirminnilegum hætti þannig að allir verða snortnir af.
„Myndin spyr alla áhorfendur, sem sjálfir eru synir og dætur, þeirrar spurningar; myndi móðir mín ganga jafn langt fyrir mig. Og mæður myndu segja; myndi ég færa slíkar fórnir fyrir mín börn,“ sagði framleiðandinn Moon Yang-kwon.
Á verðlaunahátíðinni hlaut indverska goðsögnin Amitabh Bachchan viðurkenningu fyrir ævistarfið.
„Þetta er engin endastöð fyrir mig, vona ég. Svo lengi sem það eru áskoranir fyrir mig, og svo lengi sem fólk vill vinna með mér, og ég held heilsu, þá vil ég halda áfram að vinna,“sagði hinn 67 ára gamli leikari, sem hefur leikið í alls 180 bíómyndum á ferlinum.
Loks fékk hinn þekkti hasarmyndaleikstjóri John Woo sérstök verðlaun fyrir mesta smell síðasta árs, myndina Red Cliff, sem er í tveimur hlutum, en hún þénaði rúmar 80 milljónir Bandaríkjadala í miðasölunni.
Það gekk þó ekki þrautalust fyrir Woo að gera myndina. Hinn heimsþekkti leikari Chow Yun-Fat hætti á síðustu stundu við að leika í myndinni, áhættuleikari lét lífið við gerð myndarinnar og flóð kom og eyðilagði leikmyndina. En eins og fyrr sagði slógu myndirnar í gegn og þénuðu mest allra mynda í Asíu á síðasta ári.

