Morðóða dúkkan Chucky snýr aftur

Árið 2013 tók leikstjórinn Don Mancini til við það á ný að gera bíómyndir um morðóðu dúkkuna Chucky, í Child´s Play seríunni, með myndinni Curse of Chucky, en þá hafði ekki verið gerð mynd í seríunni frá því árið 2004, þegar Seed of Chucky var frumsýnd.

Nú lítur út fyrir að Chucky sé kominn á kreik á ný, og sjöunda myndin muni brátt líta dagsins ljós, með Curse of Chucky leikurunum Jennifer Tilly og Fiona Dourif, dóttur Brad Dourif, sem talar fyrir Chucky.

Því miður er lítið vitað um söguþráð myndarinnar.

chucky

Mancini gaf í skyn í fyrra að von væri á sjöundu myndinni, með því að segja á Twitter samskiptavefnum að tökur myndu fara fram í Suður Afríku, og einnig að hann væri að skrifa handritið að Chucky 7. Meira hefur ekki heyrst úr hans herbúðum, fyrr en nú, en þau Mancini, Tilly og Dourif hafa öll tíst til skiptis um myndina síðustu daga.

Fiona Dourif tísti að hún væri að setja ofaní ferðatöskur á leið til Suður Afríku og Mancini sagði „Taktu hjólastólinn með, ég kem með blóðið.“

Curse of Chucky gerðist í framhaldi af atburðunum í Seed of Chucky, en þar þurfti Nica, sem hefur verið í hjólastól frá barnæsku, að fá systur sína, Barb, og mág hennar, Ian, til að koma í jarðarför móður þeirra. Mitt í öllu þessu þá fær Nica skrýtinn böggul, sem inniheldur fremur hrollvekjandi dúkku. Þegar líkin fara að hrannast upp þá fer Nica að gruna að dúkkan sé ekki eins og aðrar dúkkur.

Gera má ráð fyrir því að Chucky 7 muni taka upp þráðinn frá Curse of Chucky, en fyrstu fréttir af söguþræði herma að Chucky haldi áfram að hrella Nica, sem og einhverja af gömlum óvinum sínum.

Myndin er væntanleg í bíó á næsta ári, 2017.